140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að þessi grundvallarhugtök eru til staðar í frumvarpinu, þ.e. eignarrétturinn á auðlindinni er skýr, það er farið í nýtingarsamninga við fyrirtæki og það eru settir af stað einhverjir pottar sem við viljum hafa til að mæta félagslegum hluta kerfisins. En það er gengið allt of langt og það getur ekki gengið upp að við ætlum að afgreiða frumvarp frá Alþingi sem augljóslega setur í uppnám rekstur margra útgerðarfyrirtækja, sérstaklega þeirra sem eru skuldsett, geta kannski borið sig ágætlega í dag en gætu það ekki með þessari leið og yrði stefnt beint í þrot.

Það gengur heldur ekki að við tökum svo stóran hluta af þeirri aukningu sem er fyrirliggjandi, sérstaklega í þorskkvótanum, þegar það er alveg ljóst að margar útgerðir hafa á undanförnum árum keypt sér þennan kvóta. Við heyrðum dæmi fyrr í dag hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni um fyrirtæki sem hafði keypt sér kvóta fyrir háar upphæðir, lenti svo í skerðingu og hefur ekkert fengið að nota þennan kvóta. Nú á að taka stóran hluta af þessari aukningu þegar þetta er að koma til baka og setja í potta.

Þetta er óboðleg framkoma. Um þetta var engin sátt í sáttanefndinni og það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn skyldi ekki halda áfram með málið í sama farvegi þegar hún fékk það tækifæri með þessari víðtæku og breiðu sátt í sáttanefndinni. Málið hefur verið í algjörum ógöngum síðan ríkisstjórnin tók það til sín frá þessari nefnd í stað þess að ljúka vinnunni (Forseti hringir.) á þeim vettvangi.