140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Magnúsi Orra Schram að við skulum reyna að ná sátt í þessum málum. Það er gríðarlega mikið undir að við leggjumst á eitt með að ná sátt í þessu stóra máli. Við sjálfstæðismenn skulum leggja okkar á vogarskálarnar til þess.

Í grundvallaratriðum held ég að allir sem stunda útgerð og standa fyrir utan útgerð séu sammála um að þegar mjög vel gengur sé ekki óeðlilegt að útgerðarfyrirtæki greiði meira gjald af starfsemi sinni, greiði meira inn í sameiginlega sjóði okkar. En reiknireglan í þessu frumvarpi er svo kolgeggjuð að hún kemur mjög illa við mörg fyrirtæki og setur rekstur þeirra í uppnám. Það er ekki hagkvæmt fyrir okkur sem samfélag að gera það þannig. Það er ekki hagkvæmt fyrir byggðirnar úti um allt land. Þarna þarf að feta einhverja fína leið sem tekur tillit til aðstæðna hjá hverju einstöku fyrirtæki og það hefði ég haldið að væri einfaldast að nálgast með tiltölulega einföldum hætti í gegnum skattkerfið. Við þurfum ekki að vera með svona flóknar reiknikúnstir til að ná því markmiði að þegar um mikinn hagnað verður að ræða, eins og vel hefur gengið núna, sérstaklega í uppsjávarveiðunum hjá mörgum útgerðum, taki hreinlega við einhver stighækkandi prósenta. Það þarf að setjast yfir þetta og ljúka þessu en þetta er allt of flókið.

Ég fór yfir ummæli hæstv. forsætisráðherra, hvernig hún hefur talað til þessara greina, til almennings í landinu sem stundar útgerð. Við skulum muna að það eru um 500 útgerðarfyrirtæki í landinu. Fæst af þeim eru stór, flest af þeim eru lítil fjölskyldufyrirtæki. Það er hæstv. forsætisráðherra ekki sæmandi hvernig hún talar til þessa fólks og hagar sér í þeim efnum. Það eru ekki líkindi á að ná sátt þegar fólk fer fram með slíka reiði og ofstopa.