140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Eitt af stærstu málum þessarar ríkisstjórnar sem nú situr var einmitt að breyta lögum um stjórn fiskveiða, taka á þeim miklu vandamálum sem þar höfðu komið upp, ekki hvað síst sem lutu að atvinnuöryggi sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið sem höfðu orðið að horfa á bak aflaheimilda sinna og atvinnuöryggis í stórum mæli. Margar áttu um afar sárt að binda í þeim efnum. Þetta var kannski eitt stærsta málið sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir og líka eitt af stærstu málunum í kosningabaráttu og áherslum beggja stjórnmálaflokkanna sem síðan mynduðu ríkisstjórn.

Í samstarfsyfirlýsingu flokkanna við myndun ríkisstjórnar var lögð áhersla á mjög ákveðin atriði þarna. Með leyfi forseta leyfi ég mér að lesa upp úr samstarfsyfirlýsingunni:

„Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.“

Þá er einnig kveðið á um að bregðast þurfi frekar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.

Aðgerðum var skipt í tvo flokka. Annars vegar voru brýnar aðgerðir. Í fyrsta lagi var þar tíundað að knýja þyrfti á um frekari fullvinnslu afla hérlendis, m.a. með því að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli yrði settur á innlendan markað.

Þetta er eitt það fyrsta sem sjávarútvegsráðuneytið réðist í þegar ég kom þangað og hefur áunnist gríðarlega mikið í þeim efnum þannig að núna er líklega innan við 1/3 af því sem er flutt út óunninn miðað við það sem var þá. Lagt var á þetta hóflega útflutningsálag.

Takmarka átti framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára. Þetta var gert strax á fyrsta ári, þá um haustið, og ég vík að því aðeins síðar. Síðan átti að stofna auðlindasjóð sem færi með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar. Arður af rekstri sjóðsins rynni til atvinnuuppbyggingar. Þetta reyndist svolítið örðugra í framkvæmd en engu að síður varð hið fræga skötuselsfrumvarp afgreitt á þinginu. Ég lagði það fram en við þurftum að taka þar gjald fyrir útleigu á ákveðnum hluta heimilda í skötusel sem rann einmitt til atvinnuuppbyggingar, ekki hvað síst til atvinnuuppbyggingar og rannsókna í sjávarbyggðunum. Það var gríðarlega mikilvægt.

Það að vernda grunnslóð var líka eitt af markmiðunum. Áhersla var lögð á það og hefur nú verið gripið til sérstakra aðgerða til að loka fyrir dregnum veiðarfærum í ýmsum innfjörðum vítt og breitt um landið sem ég held að hafi verið gríðarlega mikilvægt.

Ráðgefandi hópur útgerðarmanna og sjómanna starfaði þangað til sérstaklega kom að samningu þeirra frumvarpa sem hér hafa verið til umræðu núna. Svo átti að heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina. Það var gert með strandveiðunum þegar núverandi strandveiðikerfi var komið á þannig að komið var til móts við einn af ísbrjótunum í því að breyta framkvæmd og lögum um stjórn fiskveiða.

Hins vegar voru langtímaaðgerðir við að endurskoða lögin í heild sinni. Þar voru markmiðin áfram þau sömu og hafa verið, að stuðla að vernd fiskstofna og hagkvæmri nýtinga auðlinda sjávar, treysta atvinnu og efla byggð í landinu, skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og leggja grunn að endurinnköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokkanna.

Endurskoðunina átti að vinna í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miða við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun tæki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010.

Þetta er það sem lagt var upp með. Ekki síst að kröfu Samfylkingarinnar var þegar við ríkisstjórnarmyndunina settur á fót sérstakur starfshópur til að fjalla sérstaklega um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hefur áður verið minnst á það hér að hann var undir forustu Guðbjarts Hannessonar.

Í þessari vegferð allri er rétt að hafa í huga að þó að þessir flokkar hafi myndað ríkisstjórn saman er verulegur munur á stefnu þeirra í sjávarútvegsmálum. Samfylkingin leggur miklu meiri áherslu á markaðslausnir, uppboð á aflaheimildum og að atvinnugreinin eigi að vera þannig að sá fær sem hæst býður. Af hálfu Vinstri grænna er jafnframt lögð áhersla á byggðaaðgerðir og að treysta atvinnu og byggð vítt og breitt um landið og að það sé hluti af hinni samfélagslegu skyldu sjávarútvegsins. Þarna á hefur ávallt verið mikill munur og hefur valdið togstreitu. Þessi hópur átti að skila 1. september það ár en það varð ekki. Raunin var sú að hann skilaði ekki fyrr en 1. september árið eftir. Það var erfitt að búa við þetta. Ég var oft kominn á fremsta hlunn með að slíta þessum hóp því að hann tafði aðgerðir við að endurskoða og breyta sjávarútvegskerfinu.

Það frumvarp sem ég kom fram með um haustið, þetta fræga skötuselsfrumvarp þar sem annars vegar var lagt til að lögfesta strandveiðina og hins vegar að koma á sérstakri úthlutun á skötusel gegn gjaldi sem rynni þá til sjávarbyggðanna, rannsóknastarfsemi og atvinnuuppbyggingar þar, olli gríðarlegu uppnámi eins og við munum. Hart var tekist á, bæði úti í samfélaginu og útgerðin og Samtök atvinnulífsins hótuðu að sigla í land. Þá áttaði ég mig á einu. Það var ekki endilega vegna þess að þau þyrftu að borga af þessum skötusel heldur töldu þau að það væri verið að brjóta samning, svokallaðan stöðugleikasáttmála. Forsætisráðherra hefði lofað og þá væntanlega fjármálaráðherra eða formenn flokkanna að ekki yrðu gerðar neinar breytingar á sjávarútvegskerfinu á gildistíma stöðugleikasáttmálans, þ.e. í tvö ár. Ég sagðist ekki hafa verið aðili að þeim sáttmála, enda var hann ekki borinn undir mig, að ég mundi gera grundvallarbreytingar og keyrði fram skötuselsmálið fræga.

Við munum hvað það var erfitt að koma því í gegnum Alþingi en ég held að nú séu flestir ánægðir með að það hafi verið gert. Það var ekki stutt af öllum forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, það skal bara sagt hér, og var lögð áhersla á að einstök atriði í því næðu ekki fram að ganga. Þetta er það sem var við að búa í þessu efni.

Þegar Guðbjartsnefndin hafði skilað af sér hófst vinna í ráðuneytinu, einu ári seinna en ráð var fyrir gert, og var skipuð nefnd beggja þingflokka til að fara yfir málið og koma með tillögur. Það var býsna langt á milli hópa þar og á milli einstaklinga. Svoleiðis var það fram eftir haustinu og fram yfir áramót en þá ákvað ég að vinna ákveðið grunnfrumvarp út frá þeim hugmyndum sem höfðu þá komið fram og lagði það síðan fyrir ríkisstjórn sem grunnvinnu. Fæstir í þeim hópi voru víst ánægðir með það sem lagt var fram og allir vildu toga í sitt. Þá var settur á fót ráðherrahópur undir forustu forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, með þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, og svo þremur þingmönnum frá hvorum flokki til að fara yfir málið. Skæklatog stóð í nokkrar vikur þar sem hver reyndi að draga sitt sem endaði með framlagningu ríkisstjórnarfrumvarps í fyrravor eftir að einn ráðherra til viðbótar var kallaður að borðinu, Guðbjartur Hannesson.

Það var margt gott í því frumvarpi og ákveðin grundvallaratriði ágæt en ég var ekki sáttur við ýmsa útfærslu, enda var þetta mikil málamiðlun. Þessi hópur undir forustu forsætisráðherra ákvað að ýmis atriði yrðu lögð fram þó að ég legði að sjálfsögðu fram frumvarpið. Það er þess vegna mesti misskilningur þegar nú er sagt að þetta sé alfarið mitt frumvarp en ég skal þó glaður standa við það sem þar er gott. Ég geri það en hleyp ekki undan því eða kalla það bílslys eða eitthvað annað því um líkt eins og einstakir ráðherrar sem tóku samt þátt í að afgreiða málið út úr ríkisstjórn og voru ekki stærri en svo að þegar þeir komust í fjölmiðla og voru komnir upp á háa c-ið sitt voru þeir með slíkar yfirlýsingar. Fleiri ráðherrar, og jafnvel forsætisráðherra, voru með yfirlýsingar í þá veru að þeir teldu sig ekki skuldbundna af þessu frumvarpi sem þeir höfðu þó sjálfir tekið þátt í að móta að stórum hluta, og einmitt þau ágreiningsatriði sem um var rætt.

Síðan var þetta frumvarp lagt fram á Alþingi og mælt fyrir því. Það var að vísu dregið og dregið og það verður bara að segjast eins og er að hluti af drættinum við að fá að leggja frumvarpið fram var að þá stóðu yfir kjarasamningar og síðan átti að endurstaðfesta kjarasamninga og þá þótti hættulegt að leggja frumvarpið fram. Það var líka ein ástæðan fyrir því að þetta dróst en það var mjög auðvelt að kenna ráðherra um þessi bellibrögð forustumanna ríkisstjórnarflokkanna.

Síðan var mælt fyrir frumvarpinu, það fór til nefndar og var hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd allt sumarið. Eins og við vitum var frumvarpið í höndum nefndar en ekki ráðuneytis því að þá var þingfrestun. Þegar málið kom svo aftur inn í septemberlok hófst aftur vinna við það og farið yfir umsagnirnar. Nefndin var ekki einu sinni búin að fara yfir umsagnirnar sem höfðu borist og til þess var tekið, sem er alveg hárrétt, að ég fékk nokkra ágæta menn sem þekktu vel til til að fara yfir umsagnir og koma með tillögur og vinnuskjal um það mál. Þegar ég ætlaði að kynna það vinnuskjal í ríkisstjórn lá óskaplega illa á öllum þar í bólinu og forsætisráðherra vildi ekki einu sinni sjá vinnuskjalið sem ég vildi ræða. Ég vildi fá að kynna það í þingflokkum en því var hafnað. Engu að síður lagði ég það fram á netinu til kynningar enda er ein af megináherslum beggja ríkisstjórnarflokkanna að stunda mjög opna og gagnsæja stjórnsýslu og vinna mjög opið. Það er undarlegt að þetta sé orðið stórmál því að það var ákaflega eðlilegt að það kæmi fram.

Síðan þekkjum við söguna. Þetta þótti ægilegur tími og ekki boðlegt að ráðherra hefði varið fjórum vikum í að fara yfir umsagnir, meta þær og koma með tillögur sem mætti skoða. Það þótti ekki boðlegt og var skipuð ráðherranefnd til að fara yfir málið. Síðan var af Evrópusambandsástæðunum skipt um í ríkisstjórn, en ráðherrann sem sagðist ætla að gera það á þrem vikum er búinn að hafa mun lengri tíma en sá sem hér stendur til að vinna það frumvarp sem hér liggur fyrir því að þann tíma var frumvarpið ekki í ráðuneytinu.

Svona er saga þessa máls. Það sem hefur hins vegar breyst í grundvallaratriðum í því frumvarpi sem hér er lagt fram frá því sem var lagt fram af þeim sem hér stendur og byggist á grundvelli stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að það er dregið mjög mikið úr öllum byggðatengingum og úr byggðakvótanum sem ég hef beitt mér fyrir og er í samræmi við stefnu míns flokks. Það er sagt að tengingarnar verði lagðar af sem slíkar. Hins vegar er látið undan þrýstingi með að koma á auknum leigumarkaði. Svo er hitt atriðið sem er meginatriðið hér, það að stórauka veiðigjaldið. Það er sjálfsagt að innheimta veiðigjald en það er jafnmikilvægt að menn athugi þá með hvaða hætti það er innheimt. Ég hef lagt áherslu á að innheimt veiðigjald eigi að skiptast líka á sveitarfélögin því að þetta er í sjálfu sér skattur og gjald á sjávarbyggðirnar í landinu (Forseti hringir.) og þess vegna ber að skipta því á milli ríkis og sveitarfélaga með sanngjörnum hætti eins og ég hef lagt til.