140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá liggur það fyrir að bæði telur hv. þingmaður sjónarmið Samfylkingarinnar hafa orðið ofan á þegar þetta frumvarp var samið og styður ekki frumvarpið í þeim búningi sem það er í.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að við hv. þingmaður erum ekkert endilega sammála um þá þætti sem mestu máli skipta þegar kemur að stýringu fiskveiðistjórnarkerfisins. Það vekur hins vegar óneitanlega mikla athygli þegar svona mikill munur er í þessum mikilvæga málaflokki á milli þeirra ríkisstjórnarflokka sem landinu stýra. Þessi mikli ágreiningur sem er fyrir hendi skýrir auðvitað hvers vegna það hefur tekið hæstv. ríkisstjórn þennan óskaplega tíma að koma með frumvarp um breytingu á sjávarútvegsmálum.

Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og skiptir mjög miklu um endurreisn landsins. Nú hefur það komið fram að hv. þingmaður treystir sér ekki til að styðja grundvallarmál ríkisstjórnarinnar. Ég spyr: Styður hv. þingmaður ríkisstjórnina engu að síður áfram til þeirra verka sem hún hefur ákveðið að sinna fram að lokum þessa kjörtímabils?