140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún gaf góða innsýn í það hver vegferðin á þessu máli hefur verið frá því að ríkisstjórnin komst til valda, hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa haldið á málinu (Utanrrh: … framan af.) — með aðstoð minni framan af, eins og hæstv. utanríkisráðherra kemur inn á.

Við sjáum í frumvarpinu að verið er að leggja á landsbyggðarskatt og það hefur verið gagnrýnt töluvert og snýr að byggðamálum. Þó að samfylkingarþingmenn vilji meina að þetta sé ekki landsbyggðarskattur er fjallað um það í úttekt og greinargerð sem fylgir með hvernig þetta er, að verið er að færa þarna fjármuni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins þvert á það sem var í frumvarpi sem hv. þingmaður lagði fram á sínum tíma þegar hann var hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hann að valdi því að ríkisstjórnin gefi svona eftir gagnvart landsbyggðinni og hafi ákveðið að fara þá leið í stað þess sem áður var, að láta fjármagnið renna til landsbyggðarinnar, og breyta þessu í algjöran landsbyggðarskatt? Hvað er það sem veldur þessari stefnubreytingu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að hverfa frá því að huga að hinum dreifðu byggðum landsins og að fjármagnið renni þangað yfir í það að gera þetta að landsbyggðarskatti og leggja hann á með þeim hætti eins og þessi tvö frumvörp gera ráð fyrir og hv. þingmaður rakti mjög vel í sinni ræðu hér áðan?