140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að minna okkur á mikilvægi þess að vinna saman. En mig langar til að spyrja hv. þingmann um það frumvarp sem við ræðum hér.

Nú er það svo að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við nú höfum og hefur reyndar reynst okkur býsna vel, skilað miklum ábata í ríkissjóð, skilað hagsælli útgerð, er reist á því markmiði að það eigi að vera þjóðhagslega hagkvæmt. Það frumvarp sem hér er til umræðu virðist lúta öðrum lögmálum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvaða áhrif hann telur að þetta frumvarp hafi á óvissu eða vissu í sjávarútvegi og hvort hann telji að það sé til þess fallið að auka fjárfestingar í greininni sem okkur vantar svo sárlega.