140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:18]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta frumvarp er ekki til þess fallið að gera neitt annað en að auka enn frekar óvissuna og það höfum við séð af þeim viðbrögðum sem frumvarpið hefur fengið. Það vekur auðvitað mjög mikla athygli, og er reyndar með miklum ólíkindum, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa metið áhrif frumvarpsins til lengri tíma áður það var lagt fram, að sú vinna skuli öll vera eftir nú þegar frumvarpið hefur verið lagt fram á þinginu.

Það hefur verið sjónarmið þeirra sem bera þetta mál uppi að það muni tryggja nýliðun í greininni. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé mér sammála um að sú nýliðun muni verða á kostnað nýliðanna sem nú eru í greininni og hafa verið á undanförnum árum að kaupa sér veiðarfæri og fyrirtæki til að byggja sjávarútvegsfyrirtæki, hvort það sé sem sagt stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eða hvort það birtist honum þannig að skipta beri um nýliða í sjávarútvegi.