140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð líka að koma að öðrum atriðum sem komu fram í ræðu hv. þingmanna. Í fyrsta lagi varðandi sáttanefndina að vera með yfirlýsingar sem ég kalla bara söguskýringar lyginnar sem hv. þingmaður á til að vera með, að forsætisráðherra hafi stoppað þá nefnd varðandi það að leita sátta. Ég ætla bara að segja það hér sem formaður þeirrar nefndar að það er lygi og ekkert hægt að orða það neitt betur.

Í öðru lagi ætla ég að biðja hv. þingmann að lesa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi sjávarútvegsmál. Fyrstu atriðin í þeirri stefnuyfirlýsingu eru hagkvæmni, að skapa störf og skapa verðmæti og góð rekstrarskilyrði. Það er einlægur ásetningur okkar en það er spurning hvernig eigi síðan að dreifa því í sambandi við vinnuna og hvernig við búum um það í lögum.

Ég hefði viljað heyra hv. formann Framsóknarflokksins tala meira um þeirra eigin tillögur frekar en að reyna að leggja öðrum orð í munn og brengla það sem aðrir hafa verið að leggja fram. Það er fullt af hlutum sem þarf að ræða á hverjum tíma og það hefur verið gert. Ég ætla að biðja hv. þingmann að tala nú fyrir sjálfan sig en ekki vera að leggja okkur hinum orð í munn.