140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar eða fyrirspurn. Ég held að það hugarfar sem hv. þingmaður lýsti í stuttu andsvari sé einmitt það sem við þurfum á að halda í þessari umræðu. Hv. þingmaður leitar að því sem er sameiginlegt, einhverju til að byggja á. Það er raunar leitt að hv. þingmaður skuli ekki vera lengur í ríkisstjórn, skuli hafa verið settur þar út, eins og reyndar eru örlög allra ráðherra sem hafa leitað samráðs og samstarfs við aðra flokka. Við munum hvernig fór fyrir hv. þm. Jóni Bjarnasyni [Frammíköll í þingsal.] sem var settur út úr ríkisstjórn fyrir það, að því er virtist, að ræða við þingmenn stjórnarandstöðu í sjávarútvegsmálum. Ég fagna því að hv. þingmaður skuli gefa þennan tón, en þetta er greinilega viðkvæmt eins og við heyrum á þingmönnum Samfylkingarinnar sem fara allir á ið og byrja að hrópa og kalla. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra um að gefa þeim hv. þingmönnum hljóð sem hér eru að reyna að svara spurningum og bera fram spurningar.)