140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við vorum ekki sammála um fullkomlega allt í fyrri hlutanum svo því sé haldið til haga. Ég náði bara ekki að fara út í það vegna þess að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar til hliðar við mig fóru allir á ið og voru nánast eins og andsetnir á tímabili þegar ég var að svara hv. þingmanni.

En það er alveg rétt, þessir meginpunktar hjá hv. þingmanni — það er hægt að ná saman um ýmislegt. Þess vegna saknar maður þess að ekki skuli vera reynt að ná samstöðu um þetta mál sem hefur verið umdeilt svo lengi. En útfærslan, sérstaklega á þeim atriðum sem hv. þingmaður nefndi í seinna andsvari, er þó töluvert önnur í tillögum okkar, t.d. varðandi veiðigjaldið og hvað rennur til nýsköpunar. Við vildum að allir greiddu í nýsköpun og hluti þess rynni til sveitarfélaga til að þróa atvinnugreinina á hverjum stað.

En útfærslan er einmitt aðalatriðið, er það ekki? Menn geta tiltölulega auðveldlega náð saman um markmiðin og svo geta einhverjir eins og ég og hv. þingmaður náð saman um meginleiðir (Forseti hringir.) en vandinn liggur í því að hanna þá útfærslu sem er best til þess fallin að ná markmiðunum. En ég held að það sé hægt (Forseti hringir.) ef menn setjast yfir hlutina og vinna þá af skynsemi í stað þess að fara að titra og skjálfa eins og nokkrir þingmenn hér (Forseti hringir.) og hrópa og kalla.