140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu og í umræðu um fiskveiðistjórnarmál yfirleitt hefur mikið verið talað um það sem kallað hefur verið umframarður eða auðlindarenta. Menn hafa farið ansi frjálslega með túlkunina á því hvað auðlindarenta er í raun og veru. Sumir segjast vilja ná meiru af henni til ríkisins, aðrir skilja hana eftir hjá sjómönnum en mér sýnist á umræðunni að ekki sé úr vegi að byrja á að útskýra hvað auðlindarenta er eða hvað umframrenta er og um hvað málið snýst. Ef hv. þingmenn í salnum mundu gefa mér hljóð og hlusta gætu þeir kannski vitnað í hvað umframrenta og auðlindaarður er með einhverju vissu í framtíðinni.

(Forseti (UBK): Forseti vill enn og aftur biðja hv. þingmenn að sýna þá virðingu að menn fái að tala úr ræðustól.)

Tökum dæmi. Gerum ráð fyrir að það séu frjálsar fiskveiðar, ólympískar fiskveiðar. Við vitum að það er takmarkað magn í sjónum og skiptir engu hversu mörgum bátum við bætum við. Ef stofninn á að vera nokkurn veginn í jafnvægi þá er ekki hægt að auka aflann.

Gerum ráð fyrir að þúsund bátar veiði afla sem er að verðmæti sirka 100 milljarðar. Þá er þetta að meðaltali 100 milljónir á bát. Innleiðum núna einkaleyfi á því að veiða og framsal í fiskveiðarnar þannig að þeir sem vilja hverfa út úr greininni geta selt hinum sem eftir verða. Þeir sem eru best til þess fallnir að fiska, eru fisknir skipstjórar, kaupa en hinir sem annaðhvort eru undir í samkeppninni eða vilja hverfa úr greininni selja.

Gerum nú ráð fyrir að á margra ára tímabili fækki bátum niður í 500, þeim fækki um helming. Þegar bátarnir voru við ólympískar fiskveiðar og voru þúsund talsins var hagnaðurinn í greininni að meðaltali núll vegna þess að allur auðlindaarðurinn var étinn upp í offjárfestingu og þess að of margir sjómenn stunduðu sjóinn. Eftir að bátum fækkar í 500 og miðað við að aflaverðmæti sé það sama, sirka 100 milljarðar, þá er augljóst hvað gerist. Aflaverðmæti tvöfaldast á hvern bát, fer upp í 200 milljónir, úr 100 milljónum í 200 milljónir. Þá má með nokkurri einföldun segja að það sem gerst hafi sé að myndast hafi auðlindarenta, umframhagnaður, í fiskveiðunum upp á 50 milljarða og orðinn er mikill hagnaður á útgerð.

50 milljarðar eru komnir þarna sem umframhagnaður eða auðlindarenta eftir því hvort við viljum kalla það, umframhagnaður er reyndar ekki rétta orðið en það skiptir ekki máli, auðlindarenta. 50 milljarðar í auðlindarentu skiptast núna á milli sjómannanna og útgerðanna. Út af hverju gerist það? Vegna þess að í íslenskum fiskveiðum er það þannig að sjómenn eru á hlutaskiptakerfi, þ.e. þeir fá vissa hlutdeild í tekjunum sem skipin koma með að landi. Þessi hlutdeild er um það bil 40% af svokölluðu skiptaverði eftir að búið er að draga frá olíukostnað og veiðarfærakostnað. Með mikilli einföldun getum við sagt að hlutaskiptakerfið geri það að verkum að 50 milljarðarnir sem mynduðust í umframarð, auðlindarentu, skiptist í þeim hlutföllum að sjómennirnir fá 20 milljarða og útgerðirnar fá 30 milljarða. Síðan snýst deilan, sem er reyndar í öðru frumvarpi sem er næst á dagskrá, um hversu mikið ríkið á að taka af þeim 30 milljörðum sem útgerðirnar fá. — Og nú ætla ég að biðja hv. þingmenn aftur um að gefa mér hljóð. (Gripið fram í: Við erum að hlusta á þig.) Deilan snýst um það hvert þessir 30 milljarðar eiga að fara, hvort þeir eiga að fara til útgerðarinnar óskiptir eða hvort ríkið á að taka þátt í því.

Hvað gerir þetta frumvarp sem við erum með hér? Í fyrsta lagi það að nýtingarrétturinn er takmarkaður við 20 ár og það sem meira er, að 20 árum liðnum verður hann það sem kallað er hreint nýtingarkerfi þannig að þá verður ekkert framsal leyft lengur, þ.e. þá geta óhagkvæmar útgerðir ekki selt til hagkvæmra útgerða, hagræðingin er stöðvuð. Hvað gerist? Það er náttúrulögmál að fyrirtæki staðna og verða óhagkvæm með tímanum. Undir því að ekki sé hægt að framselja lengur verður þessi stöðnun kerfisbundin og smátt og smátt verður útvegurinn óhagkvæmari, þ.e. meiri og meiri hluta af 50 milljörðunum, eða reyndar af 30 milljörðunum sem fóru til útgerðanna, er eytt í sóaða auðlindarentu.

Í því frumvarpi sem er til umræðu er gert ráð fyrir að sjómönnum fjölgi. Talað er um að ýtt verði undir nýliðun þannig að bátunum 500 sem við vorum búin að fækka úr þúsund á að fjölga aftur, þ.e. það á að fjárfesta meira í útgerðinni sem leiðir til þess að fleiri verða um hituna og útgerðarrentunni er eytt í of marga sjómenn og of mikla fjárfestingu. Það er það sem gerist.

Hvað verður þá eftir? Það sem þá verður eftir er að auðlindarentan sem við vorum búin að ná fram, 50 milljarðarnir, minnkar með tímanum. Það verður minna sem kemur í hlut sjómannanna og það verður minna sem kemur í hlut útgerðanna og það verður minna fyrir ríkið til að geta skattlagt. Þetta eru grundvallaratriði fiskihagfræðinnar og þessu getur enginn mótmælt. Það er búið að sýna þetta og sanna með reynslu til dæmis okkar Íslendinga. Það sem þetta frumvarp gerir er að það eykur óhagkvæmnina og það stöðvar þá hagræðingu sem hefur verið í gangi. Óhagkvæmnin eykst.

Þá segja sumir: Kvótakerfið hefur gert það að verkum að nú geta sum byggðarlög ekki byggt á fiskveiðum. Það er alveg rétt. Það er alveg rétt að sum byggðarlög geta ekki byggt á fiskveiðum lengur, kvótinn hefur færst frá þeim yfir til hagkvæmari útgerða. En það er fyrst og fremst vegna tæknibreytinga. Árið 1963 þegar ég fæddist þurfti 50 báta og í kringum 300 karla til að veiða 2.500 tonn af síld. Árið 1980 þurfti sex skip og um 100 karla til að veiða 2.500 tonn. Í dag með stóru fjölveiðiskipunum þarf átta til tíu karla og eitt skip til að veiða 2.500 tonn af síld. Þetta eru tæknibreytingarnar og þess vegna hefur kvótinn safnast frá litlu stöðunum, eða réttara sagt frá því að vera dreifður um allt yfir í að samþjappast. Við sjáum það til dæmis í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, sem hefur sérhæft sig í uppsjávarveiðum. Í dag er mestallur uppsjávarfiskur á Íslandi veiddur í því litla kjördæmi — það er reyndar stórt kjördæmi en fámennt. Þetta eykur óhagkvæmni.

Svo er annað. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að þegar auknar verða aflaheimildir í þorski, sem mun gerast þegar þorskstofninn vex, þá verði 40% af aukningunni tekin og sett inn í einhvern leigupott og 60% fara til útgerðarinnar. Þannig að eftir því sem stofninn verður stærri, því stærri verður potturinn. Það sem meira er, öll frávik sem verða, ef einhver missir til dæmis veiðileyfi þá er það sett í pottinn, byggðakvótinn sem hann var með o.s.frv.

Hvað gerist? Úr þeim potti verður hægt að leigja sér fisk. Þar geta nýliðar farið af stað og byrjað útgerð. Og hvað gerist? Í staðinn fyrir að leigja af útgerðarmönnum þá leigja nýliðarnir af ríkinu. Það gerist ekkert. Þetta hvetur ekki neitt áfram, ekki neitt. En aftur á móti er það rétt að afraksturinn af slíkri leigu fer til ríkisins og hann fer, eins og hv. þm. Jón Bjarnason orðaði það, í gin ljónsins, hann fer til ríkisins sem aldrei er hægt að seðja með skatttekjum, aldrei. (Gripið fram í.) Svo geta menn tekið ákvörðun um það út frá hugmyndafræðilegum ástæðum eða einhverri innri lógík sem menn búa yfir hvort þeir telji skynsamlegra að þessir fjármunir séu settir í ríkisrekstur eða hvort þeim sé haldið inni í atvinnurekstri. Menn geta tekið ákvörðun um það fyrir sig sjálfa.

Menn þurfa að spyrja einnar grundvallarspurningar: Er líklegra að maður verði nýliði í útgerð með því að leigja af ríkinu fremur en af útgerðarmönnum? Ég held ekki. Ég held að það skipti þann sem ætlar að byrja sjómennsku ekki nokkru máli af hverjum hann leigir nema það sé af miklum hugsjónaástæðum.

Síðasti punkturinn sem ég ætla að vera með í þessari fyrstu ræðu minni í kvöld er — þetta var eitthvað alveg rosalega gáfulegt. (Gripið fram í: Það kemur.) Ég er hræddur um að það komi ekki. (Gripið fram í: Þetta gáfulega?) (Gripið fram í: … missa af þessu.) Þetta er alvarlegt. Ég er nefnilega með fullt af öðrum punktum en ég vil ekki byrja á þeim vegna þess að ég næ því ekki á þessum tíma. Ég á örlítið eftir af tímanum en ég held að ég segi þetta bara gott í bili.