140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni kærlega fyrir ræðu hans og þann kraft og þá innlifun sem kom fram í orðum hans og sannfæringu hans í þessu máli.

Það sem ég vil taka fram er að ég deili áhyggjum þingmannsins um útfærsluna á veiðigjaldinu. Því miður er það hins vegar þannig að við erum ekki að ræða það beint, það hefði jafnvel verið ágætt að við hefðum getað sameinað umræðuna um veiðigjaldið við þessa en við tökum hana bara seinna. En ég deili þeim áhyggjum að þetta sé hugsanlega ekki hagkvæmasta leiðin og ríkið er, eins og við vitum, ekki alltaf best til að ráðstafa fjármunum.

Ég mundi hins vegar vilja spyrja þingmanninn hvort hann, eins og mér fannst endurspeglast í orðum hans, sé ekki fylgjandi samkeppni og markaðshyggju í rekstri sjávarútvegsins eins og raunar kannski öllu efnahagslífinu. Ég velti fyrir mér hver sé ástæðan fyrir því að það hefur verið nokkur tregða að tryggja að afurðin, fiskurinn sem komið er með að landi, sé seld á markaði, fiskurinn fari inn á markað, eða þá að markaðsverð sé látið ráða í uppgjöri í beinum viðskiptum við sjómenn. Þar tel ég að fjármunir mundu skila sér ágætlega til viðkomandi sjávarbyggða vegna þess að sjómenn borga tekjuskatt og þá kæmu þeir peningar beint í gegnum útsvarið hjá sveitarfélögunum og gagnsæi yrði líka miklu meira. Þá væri markaðurinn einmitt að virka. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá þingmanninum hver er til dæmis afstaða hans til bókunar sem kemur fram í skýrslu (Forseti hringir.) endurskoðunarnefndar á fiskveiðistjórnarkerfinu þar sem sjómenn og Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda leggja mikla áherslu á þetta.