140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að reyndar sé tiltölulega auðvelt að færa rök fyrir því að tvö til þrjú fyrirtæki væru hagkvæmasta fyrirkomulagið. En aftur á móti, út af ástæðum sem má kenna við samkeppni og fjölbreytni og því sem ég talaði um í ræðu minni áðan, rísa fyrirtæki og falla, það er náttúrulögmál. Fyrirtæki staðna og annað slíkt, og þá er betra að vera með mörg fyrirtæki. Jafnframt er líka svo að eitt stórt fyrirtæki eða tvö eða þrjú gætu komist í svokallaða einkeypisaðstöðu, þ.e. þau gætu haldið niðri verði á fiski, þau gætu haldið niðri launum og öðru slíku, þau kæmust í einkeypisaðstöðu sem er hin hliðin á einokunaraðstöðu og er þjóðhagslega óhagkvæmt og skerðir velferðina.

Ég sé ekki að það sé samkeppnishamlandi að fyrirtæki sé í lóðréttri starfsemi, þ.e. í vinnslu, veiðum og sölu, síður en svo, vegna þess að ef fyrirtækin eru nægilega mörg hamlar það ekki samkeppni.

Jafnframt er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að í fiskveiðum þar sem á að innheimta fiskveiðiarðinn að fullu, þ.e. að eyða honum ekki á altari offjárfestingar, er ekki samkeppni vegna þess að það byggir á því að vissir aðilar fá einkaleyfi til að veiða. Annars fáum við útkomuna sem ég talaði um áðan með þúsund skipin. Það er ekki hægt að hafa það þannig að auðlindin sé opin fyrir öllum vegna þess að það leiðir til ólympískra fiskveiða og þá eyðist allur auðlindaarðurinn og ekkert verður eftir til að skattleggja og þá er ekkert eftir (Forseti hringir.) nema vælið sem við heyrðum í útgerðinni áður en þessi stóra breyting varð um miðjan tíunda áratuginn.