140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Punkturinn hjá mér, hv. þingmaður, var að þetta fé er notað til að byggja upp atvinnu. Tökum til dæmis Granda sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar talaði um í dag. Hann reiknaði út að nettóhagnaðurinn þar væri um 4,2 milljarðar eftir að búið væri að borga veiðileyfagjaldið og tekjuskattinn. Á Þórshöfn var Grandi að byggja núna upp fullkomið frystihús fyrir uppsjávarfisk, makríl, síld og loðnu, fyrir 6 milljarða. Á Vopnafirði er sama saga. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hafði tilkynnt að hún mundi byggja fullkomið frystihús fyrir uppsjávartegundir til að auka aflaverðmætið, auka gjaldeyristekjurnar og annað slíkt. Í gær sagði forstjóri Vinnslustöðvarinnar: Með þessu frumvarpi slæ ég þessar framkvæmdir af.

Hv. þingmaður. Það hefði kannski verið nær að setja þetta inn í SpKef. Það hefði kannski verið nær að setja þetta í stjórnlagafrumvarp, það hefði kannski verið nær að setja þetta í þau ruglverkefni sem ríkisstjórnin er að leika sér með, það hefði kannski verið nær. Við hefðum þá getað étið það á næsta ári.