140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:23]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir áhugaverða ræðu. Ég get tekið undir með honum í því að sú fyrningarleið sem hann hefur lagt fram í frumvarpi sínu er um margt mjög forvitnileg. Hver veit nema sá tími komi að slík hugmynd eigi upp á pallborðið og verði hluti af þeirri lausn sem menn búa við til framtíðar?

Við erum með frumvarp í höndunum sem er ætlað að svara ákveðnum kröfum og ætlað að svara meðal annars því sem við getum kallað einhverja afdrifaríkustu lagasniðgöngu Íslandssögunnar. Það er sú staðreynd að við höfum um áratugaskeið verið með í lögum um stjórn fiskveiða ákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni en menn hafa í raun og veru litið fram hjá lykilákvæði laganna varðandi skiptinguna á auðlindaarðinum af þessari mikilvægustu auðlind þjóðarinnar í sögulegu samhengi. Það er kannski það mikilvægasta í frumvarpinu að loksins eftir öll þessi ár er þjóðin að fá sanngjarnan hlut af auðlindaarðinum eða auðlindarentunni. En um þetta eru deildar meiningar eins og eðlilegt er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða leiðir sér hann til að ná betri sátt á milli manna? Nú sjáum við það að hverjum þykir sinn fugl fagur og ýmsar skoðanir eru á því frumvarpi sem hér er til umræðu, eins og reyndar öllum frumvörpum um breytingar á stjórn fiskveiða síðustu árin. 70% þjóðarinnar á góðæristímanum voru óánægð með þetta kerfi. En hver er leiðin til að ná mönnum saman, bæði í þingsalnum og annars staðar, um kerfi sem er sanngjarnt og viðurkennir einmitt sameign þjóðarinnar á auðlindinni?