140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hvað þjóðareign er og ég held að þingmaðurinn hafi að einhverju leyti svarað því sjálfur í ræðu sinni þegar hann ræddi einmitt um Þingvelli. Það er ágætt að hafa lögin um Þingvelli frá 1928 aðeins í bakheilanum þegar við ræðum þetta en það er einmitt það viðmið sem stjórnlagaráðið hefur til grundvallar í því frumvarpi sem við höfum verið að ræða, ræddum í gær og ræðum aftur væntanlega á morgun, þ.e. að þjóðareign sé eign sem ekki má selja eða veðsetja. Ríkið er síðan einhvers konar vörsluaðili fyrir þá eign og þarf að hafa það boðorð í heiðri að selja ekki eignina eða veðsetja.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um þann afrakstur sem setið hefur eftir hjá vörslumanninum, hjá ríkinu, af þjóðareigninni á liðnum árum. Nú hefur auðlindarentan farið vaxandi í sjávarútveginum á undanförnum árum. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins var hún rúmir 20 milljarðar á fiskveiðiárinu 2009/2010, rúmir 20 milljarðar 2008/2009 og lítillega lægri á árunum þar á undan. En það sem er athyglisvert er að veiðigjaldið á því tímabili var einungis á bilinu 1–3%, í raun og veru hverfandi og fór niður í 440 milljónir fiskveiðiárið 2006/2007, sama fjárhæð fiskveiðiárið 2007/2008 og síðan niður í 126 milljónir fiskveiðiárið 2008/2009.

Hvert er að mati hv. þingmanns eðlilegt hlutfall af auðlindarentunni sem ætti að sitja eftir hjá þjóðinni þannig að við náum sátt um þessa lykilatvinnugrein þjóðarinnar?