140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er vel þekkt að þegar ríkisvaldið hefur heimild til einhvers sem gagnast hluta af borgurunum, t.d. einu sveitarfélagi, þá kemur krafa um að sú heimild verði nýtt. Til dæmis þegar Guðbjörg sigldi frá Ísafirði til Akureyrar með kvótann hefðu menn hugsanlega og mjög sennilega beitt þessu ákvæði, að skylda ríkissjóð til að kaupa hluta af þeim kvóta og selja hann svo aftur inn á Ísafjörð. Þetta er akkúrat dæmi um það. Þrýstingurinn á stjórnvöld, þrýstingur þingmanna Ísafjarðar yrði mjög sterkur að gera slíkt, og það er einmitt það sem ég er að tala um.

Hér talaði hæstv. ráðherra um vörslumenn þjóðarinnar, mjög fagurt og göfugt og allt það. En svo komum við að raunveruleikanum. Ríkið er ekki það sama og þjóðin. Ríkið hegðar sér alltaf eins og lögpersóna, ríkið er að taka á sig skuldbindingar í stórum stíl og alveg sérstaklega undanfarið utan laga og reglu án þess að íbúarnir séu spurðir, eða þjóðin. Ég nefni SpKef og mörg fleiri dæmi. Það er fögur heimssýn að ríkið sé sama og þjóðin og ríkið muni alltaf hegða sér til hagsbóta fyrir þjóðina. Það er alls ekki þannig, því miður, og það sáum við í Sovétríkjunum þar sem ríkið var allt í öllu og átti að gæta hagsmuna þjóðarinnar og var fulltrúi þjóðarinnar, alveg örugglega. Það gekk bara ekki vel. Ríkið fór ekkert endilega eftir þeirri fögru heimssýn sem menn höfðu byggt upp.