140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er það eina sem ég fann þar sem ráðherra þyrfti að ræða við þjóðkjörna fulltrúa um það hvernig hann á að útdeila gríðarlegum verðmætum. Ég taldi ekki upp þessi 55 skipti þar sem hann þarf að fara í þessa þingsályktunartillögu. Þetta er útdeiling verðmæta. Grunnhugsunin er að einhver hættir í útgerð eða einhver breyting verður á henni og þá á að vísa þessu aftur inn á sama svæði sem er ekki skilgreint. Á einum stað á Hagstofan að skilgreina svæði. Gefum okkur að það væri tiltölulega einfalt, að það væri á Akureyri og menn ætluðu að halda því á Akureyri — ef menn halda að það sé einfalt að deila því með einhverjum reglum á þá útgerðaraðila sem þar eru er það fullkominn misskilningur. Það er örugglega ekki einfalt og verður ekki óumdeilt en við erum að færa gríðarleg völd til framkvæmdarvaldsins.

Virðulegi forseti. Þetta veldur mér miklu meiru en vonbrigðum. Ég er ekki að skamma hæstv. ráðherra svo ég segi það aftur en hér er verið að upplýsa að það er ekki búið að gera úttekt á því sem snýr að bankakerfinu. Menn koma í fullri alvöru bísperrtir og segja: Það á bara að klára þetta. Ég held að eftir fyrstu ræðuna hafi menn hrópað: Málþóf. Þegar einn stjórnarandstæðingur var búinn að halda ræðu var búið að kalla að hér væri málþóf. Það liggur svo á að keyra þetta í gegn en það er ekki búið að gera úttekt á bönkunum. Hæstv. ráðherra minnti á það, ég var ekki alveg búinn að gleyma því en ég ætlaði ekki að fara í það, að það var ekkert undirbúið fyrir gengislánadóminn. Látum það eiga sig en hér erum við að tala um grundvallarbreytingar. Það er vitað að kröfuhafarnir eru garanteraðir, þeir munu ekki bera skaða. Skattgreiðendur munu bera skaða ef þetta lendir illa, sem það gerir, á efnahag sjávarútvegsfyrirtækjanna og þar af leiðandi efnahag bankanna. Hér kemur hæstv. ráðherra og segir: (Forseti hringir.) Við erum ekki búin að skoða þetta.