140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er það ljóst að allar stórar breytingar vekja okkur til umhugsunar og eru þess valdandi að miklar umræður spinnast um þær. Ákveðnir þættir í stjórn fiskveiða hafa lengi verið umdeildir en vert er að minna á það enn og aftur að frumvarpið sem við fjöllum um er í meginatriðum byggt á niðurstöðum starfshópsins sem skipaður var í júlí 2009. Meginmarkmið frumvarpsins er sjálfbær nýting auðlindarinnar og um það tel ég að almenn sátt ríki. Sjálfbærni fiskveiða er grunnmarkmið og forsenda þess að árangur náist við að uppfylla önnur markmið laganna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lengi talið mikilvægt að ráðist verði í úrbætur á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til að ná fram réttlátara aðgengi að nytjastofnum á Íslandsmiðum en nú er. Varanlegasta breytingin, og sú sem beinast liggur við að innleiða, er að hefja endurráðstöfun aflaheimilda og eftir atvikum að koma á annars konar afnotarétti að undangenginni innköllun aflaheimilda um leið og gætt sé jafnræðis.

Virðulegi forseti. Umræður um sjávarútvegsmál hafa því miður lengi verið fastar í deilum um kvótakerfið sjálft á kostnað þess að rætt hafi verið um sóknarfæri greinarinnar til framtíðar. Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram er lagt til að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði lýstir sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Með því tel ég að hluta af markmiðum okkar verði náð. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum. Það hlýtur að vera meginmarkmiðið með allri auðlindanýtingu að núlifandi kynslóð deili náttúruauðlindunum í þjóðareign með óbornum kynslóðum en ráðstafi þeim ekki einungis í eigin þágu.

Það kemur fram í dómi Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu, þar sem fjallað er um heimild löggjafans til að gera breytingar á stjórn fiskveiða og þar með rétti til að veiða, eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„… að breytt sjónarmið um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum séu geti réttlætt breytingar. Svigrúm það sem Hæstiréttur telur að löggjafinn hafi til breytinga á lögunum tengist þannig beint þeim markmiðum sem fiskveiðistjórnarkerfinu er ætlað að stefna að.“

Í skýringum með 1. gr. laganna kemur fram sú sjálfsagða stefnumörkun að markmiðið með stjórn fiskveiða sé að nýta fiskstofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Auk þess er það í höndum löggjafans hverju sinni að fjalla um og taka ákvörðun um hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þá sameign okkar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Í 3. kafla frumvarpsins kemur fram þessi áhersla á hið samfélagslega markmið fyrirkomulags stjórnar fiskveiða og bent er á að löggjafinn njóti ríkrar heimildar til að gera breytingar á lögunum án þess að það verði talið brjóta í bága við sjónarmið um vernd atvinnuréttinda samkvæmt stjórnarskránni. Við þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi hefur verið gerð tilraun til að horfa til þeirra ólíku hagsmuna sem við auðlindina eru bundnir og þess markmiðs sem löggjafinn stefnir að. Þá hefur verið leitast við að horfa til þeirrar skyldu á grundvelli þjóðréttarsamnings sem álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fól í sér fyrir íslenska ríkið.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er gerð tilraun til að leita jafnvægis þannig að hagsmunir aðila fari sem best saman. Fram kemur í greinargerðinni að ákveðin fórnarskipti séu óhjákvæmileg en engin ástæða sé til þess að líta á hagsmuni þessara aðila sem ósamrýmanlega. Ef rétt er á málum haldið ætti að geta farið saman hagkvæmni útgerðarfyrirtækja, þjóðhagslegur ávinningur og stöðugleiki atvinnusvæða þar sem löng hefð er fyrir fiskveiðum og fiskverkun.

Það kemur líka fram hjá Þóroddi Bjarnasyni prófessor í greinargerð með frumvarpinu að hnignun sjávarþorpa sé margþætt ferli sem eigi sér almennar skýringar á borð við auknar kröfur um þjónustu og fjölbreyttari möguleika á ýmsum sviðum, hækkandi menntunarstig og sérhæfðara vinnuafl og sértækar skýringar á borð við aflasamdrátt, samþjöppun og breytingar í fiskvinnslu og aukinn útflutning á ferskum fiski. Hann fjallar einnig um neikvæð áhrif núverandi fiskveiðistjórnarkerfis á sjávarbyggðir sem hann segir einkum felast í staðbundnum samdrætti aflaheimilda með tilheyrandi áhrifum á vinnslu og þjónustu við sjávarútveg.

Með því fiskveiðistjórnarkerfi sem við nú búum við hefur skapast óvissa um staðbundna atvinnu sem aftur hefur áhrif á fasteignamarkað, rekstur sveitarfélaga og efnahagslegar forsendur annarrar atvinnustarfsemi. Þóroddur telur að færa megi fyrir því rök að íbúar, sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarbyggðum þurfi að hafa vissu um ákveðnar aflaheimildir að minnsta kosti 15 ár fram í tímann líkt og útgerðarfyrirtækin, eins og lagt er til í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Stöðugleiki tiltölulega öflugra og fjölmennra atvinnusvæða, þar sem löng hefð er fyrir fiskveiðum og fiskverkun, getur auðveldlega farið saman við hagkvæmni útgerðarfyrirtækja, jafnvel þótt slík starfsemi verði lítil í einstaka byggðakjörnum um lengri eða skemmri tíma. Sóknartækifæri sjávarútvegsins liggja ekki síst í fiskvinnslu og sé horft til heildarhagsmuna íbúa á slíkum atvinnusvæðum virðist augljóst að leggja beri höfuðáherslu á eflingu öflugrar útgerðar og fiskvinnslu á svæðinu í heild, samhliða uppbyggingu á fjölbreyttari atvinnustarfsemi.

Því meira sem unnið er að fiski hér á landi, þeim mun meiri atvinna skapast í byggðum landsins og heildarverðmæti eykst fyrir þjóðarbúið. Ég tel að með frumvarpinu séum við að nálgast hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um sjálfbæra þróun sem þarf að vera ráðandi í sjávarútvegsstefnu Íslendinga og tryggja verður að fiskveiðar umhverfis landið séu sjálfbærar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa lífríkis og hafsbotns.

Það er hægt að eyða löngum stundum í að ræða mál eins og sjávarútvegsmál Íslands. Hér hefur mikið verið sagt og stór orð látin falla en ég vona að þeir hv. þingmenn sem um málið fjalla í nefndarvinnunni fram undan dragi nú djúpt andann og ræði málefnið með jákvæðu hugarfari öllum landsmönnum til hagsbóta.