140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ekki er hægt að hefja umræðu um þetta mál án þess að minnast eilítið á þá staðreynd sem var til umræðu við upphaf málsins hér í dag, þá staðreynd að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki viðstaddur þessa umræðu og að auki þá staðreynd að töluvert margir fulltrúar í atvinnuveganefnd eru einnig staddir erlendis. Það kom fram við umræðuna hér í dag, þegar fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór að fjalla um þá ágalla sem eru á því frumvarpi sem liggur fyrir, hve í raun hefur verið gefið eftir gagnvart landsbyggðinni og hinum dreifðu byggðum þegar kemur að veiðigjaldinu og öðru slíku. Þá kom það kannski best fram hver ástæðan kann að vera fyrir því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki við þessa umræðu hér í dag.

Þegar við horfum á þetta frumvarp og veiðileyfagjaldið, því að þau tvö mál eru auðvitað nátengd, þá er ekki hægt að segja annað en að um verulegan landsbyggðarskatt sé að ræða. Sú spurning kom fram í umræðunni, hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, hvað það væri sem fengi ríkisstjórnina til að gefa svona eftir gagnvart landsbyggðinni. Það kom raunar annað merkilegt atriði fram sem sneri að því að samningamaður Íslands, Tómas Heiðar, hefði verið látinn hætta þegar nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við, en hann hefur haldið gríðarlega vel á málum sem tengjast makrílnum og eins hvalveiðum okkar Íslendinga.

Maður veltir því fyrir sér hvenær komi að þeim tímapunkti að nýorðinn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem leggur frumvarpið fram, hætti að gefa eftir gagnvart þjóðinni og gagnvart samstarfsflokknum. Það var gefið eftir í Evrópusambandsmálinu, það var gefið eftir í Icesave-málinu og nú er gefið eftir gagnvart landsbyggðinni í veiðileyfagjaldinu. Er verið að undirbúa eftirgjöf í hvalnum og makrílnum? Maður hlýtur að spyrja þeirra spurninga.

Eins og ég kom að er hægt að segja um ramma þessa frumvarps, grunnuppbygginguna ef við segjum sem svo, að í grófum dráttum sé hægt að fella sig við hann. Það er hins vegar innihaldið og það sem er inni í þessum ramma, útfærslurnar á einstökum þáttum og einstökum liðum, sem er mjög gagnrýnisvert og að því ætla ég að koma hér í máli mínu.

Það hefur komið fram í umræðunni að svokallaður pottur 2, sem gert er ráð fyrir að 30 þús. tonnum verði úthlutað í, eigi að skiptast í þrjá potta. Það er kvótaþing sem um helmingurinn fer í, strandveiðar 25% og línuívilnanir og byggðakvóti önnur 25%. Með því að stíga þetta skref er til að mynda verið að minnka byggðakvóta úr 6 þús. tonnum niður í 3.100 tonn og setja inn í þetta kvótaþing. Þarna er verið að stíga skref í áttina frá byggðaaðgerðum yfir í þennan leigumarkað. Þetta er mjög gagnrýnisvert og það liggur alveg ljóst fyrir að þetta er ekki til þess fallið að efla byggð í landinu þrátt fyrir að ríkisstjórnin tali um það í markmiðsgrein frumvarpsins og menn tali um það á tyllidögum — það kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar í dag — að einn megintilgangur frumvarpsins væri að efla byggð í landinu. Maður veltir fyrir sér af hverju við erum að horfa upp á það að til að mynda í útfærslunni á þessum lið sé í raun verið að draga úr styrk hinna dreifðu byggða hvað þetta snertir.

Í ofanálag er breyting í stefnu frá því sem var í þeim frumvörpum og vinnuplöggum sem voru í gangi hjá fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og varðar það hvernig veiðileyfagjaldið á að skiptast. Veiðileyfagjaldið eða auðlindagjaldið, eða hvað sem menn vilja kalla það, átti allt saman að skiptast, bæði í potti 1 og potti 2 í þrjá jafna hluta, í ríkissjóð, til einstakra landshlutasamtaka og svo til þróunarverkefna í greininni.

Nú er hins vegar búið að breyta þessu þannig að það er einungis pottur 2 sem á að skiptast til sveitarfélaganna, til landshluta eða samtaka sveitarfélaga, til þróunarstarfs í greininni og ríkissjóðs. Síðan á allt í potti 1 að renna beint inn í ríkissjóð. Ekki er hægt að segja annað en að þar sé um hreinan og kláran landsbyggðarskatt að ræða, og það er gríðarlega alvarlegt. Ef við setjum þessar upphæðir í samhengi má gera ráð fyrir því að veiðigjaldið sem komi af þessum potti 2 sé um 1 milljarður, en um 20 milljarðar af potti 1. Við erum því að tala um það að til að mynda sveitarfélögin úti á landi fái þá um 400 milljónir á ári í staðinn fyrir að þau hefðu átt að fá um 8 milljarða. Þetta eru gríðarlega háar fjárhæðir sem eru hreinn og klár landsbyggðarskattur sem enginn ber ábyrgð á nema þeir sem leggja umrætt frumvarp fram. Ég trúi því ekki að það sé vilji hér á Alþingi til þess að fara fram með málið með þessum hætti.

Síðan er það útfærslan á þessu gjaldi. Eins og komið hefur fram í umræðunum í dag gerir frumvarpið ráð fyrir því að ekki sé hugsað út frá hverri og einni útgerð heldur út frá atvinnugreininni í heild, sem gerir það að verkum að fyrirtæki sem eru annars vegar í vinnslu eða veiðum eða í hvoru tveggja — breytingin og breytileikinn þarna á milli getur gert það að verkum að ákveðin fyrirtæki munu greiða miklu hærra auðlindagjald en reksturinn á þeim nokkurn tíma leyfir. Hugsunin er ekki sú að þetta sé reiknað út frá hverju og einu fyrirtæki heldur atvinnugreininni í heild. Þetta mun klárlega fara mjög illa með mörg útgerðarfyrirtæki, bæði stór og smá, sem eru hugsanlega ekki með vinnslu eða eru einungis með vinnslu, það er mikil hugsunarvilla í þessu.

Frú forseti. Það er óhætt að segja, eftir að maður hefur hlustað á umræðuna hér í dag, að það hefði verið mjög fróðlegt ef raunveruleg dæmi hefðu fylgt, raunveruleg dæmi af útgerðarfyrirtækjum, stórum sem smáum, hvernig þetta mun koma niður á rekstri þeirra. Það liggur allt of lítil vinna að baki og það hefur komið fram í umræðunni hjá þeim fáu stjórnarliðum sem hafa talað hér og ef þeir hafa verið inntir eftir því. Það liggur nánast engin vinna að baki varðandi einhverjar hagfræðilegar úttektir á þessu. Það er þarna greinargerð sem unnin er af þeim Daða Má Kristóferssyni og Þóroddi Bjarnasyni þar sem reynt er að kafa ofan í þetta með einhverjum hætti en þessu er algjörlega ábótavant, bæði hvað varðar áhrifin á einstök sjávarútvegsfyrirtæki og eins á ákveðin byggðarlög.

Sá kafli sem til að mynda fjallar um áhrifin á einstök byggðarlög telur tvær blaðsíður og þegar maður les þessar tvær blaðsíður vakna fleiri spurningar en þar er svarað. Þar er meðal annars fjallað um að ekkert í þessu frumvarpi bendi beinlínis til þess að verið sé að styrkja byggð í landinu, það eigi eftir að útfæra þarna ákveðna þætti og það liggi alveg ljóst fyrir að breytingin, eins og ég sagði, á potti 2 — að setja 50% af honum í þetta svokallaða kvótaþing — tengist því ekki á nokkurn hátt að efla byggð í landinu. Menn verða að segja hlutina eins og þeir eru, menn geta ekki talað um að þessar breytingar séu til þess hugsaðar að efla byggð í landinu, það er bara yfirskin.

Það kemur raunar fram þegar maður innir þingmann eins og hv. þm. Helga Hjörvar eftir því hér í umræðunum í dag, í andsvörum, þar sem hann minntist nánast ekki einu orði á byggðirnar í landinu og áhrif frumvarpsins á þær — öll ræðan fjallaði raunar um það hvernig ríkissjóður gæti fengið aukna rentu af þessari auðlind. Það var ekkert minnst á einstök byggðarlög. Eins og ég rakti hér áðan eru það um 20 milljarðar sem á að taka út af landsbyggðinni og flytja inn í ríkissjóð og engin hugsun um það hvernig eigi að úthluta þessu aftur til einstakra byggðarlaga. Það er einungis 1 milljarður sem á að renna til einstakra byggðarlaga og menn geta ekki á nokkurn hátt talað um að þetta frumvarp styrki byggð í landinu. Þetta er afturför fyrir byggð í landinu og það kom mjög vel fram hjá hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þegar hann talaði hér í dag.

Ramminn á frumvarpinu, beinagrindin sjálf, er eitthvað sem vel er hægt að vinna með en einstök útfærsluatriði eru þannig að þau þurfa að taka stórfelldum breytingum. Það þarf að efla stöðu hinna dreifðu byggða í frumvarpinu og það verður að tryggja að veiðigjaldið renni í auknum mæli til einstakra byggðarlaga. Ef þessar breytingar verða ekki gerðar á frumvarpinu geta menn raunar bara strikað út c-liðinn í 1. gr. frumvarpsins með markmiðum laganna þar sem fjallað er um að þetta eigi að treysta byggð í landinu. Frumvarpið eins og það er lagt fram nær ekki þeim áfanga að treysta byggð í landinu.

Þegar þetta mál verður tekið fyrir í nefnd er mjög brýnt að fram fari einhver hagfræðileg úttekt á því, en það er ekki síður mikilvægt að það fari fram einhver úttekt á því hvaða áhrif þetta hefur fyrir byggðarlögin. 20 milljarðar í beina fjármagnsflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar eru ekki liður í því að efla byggð í landinu. Það er ekki hægt að tala um það með þeim hætti og það er algjört lykilatriði að þetta veiðigjald renni allt inn í skiptinguna eins og lagt er upp með í potti 2. Öðruvísi er ekki hægt að tala um að þetta efli byggð í landinu.

Síðan eru fleiri þættir sem má velta upp og þarf að skoða betur. Það er til dæmis þessi hugmynd um 3% fyrningu við aðilaskipti á kvóta. Það má líka velta því fyrir sér varðandi fyrri pottinn og aflamarkið sem þar er inni hvort það eigi að miðast við það sem það er í dag, eftir þær skerðingar sem verið hafa, eða hvort það eigi að miðast við hærri tölu eftir aukningu. Við verðum auðvitað að fjalla um málin eins og þau eru. Þegar menn koma hér upp ítrekað og fjalla um sjávarútveginn og þá sem starfa í sjávarútvegi eins og um sé að ræða glæpamenn sem flestir séu að kaupa bifreiðafyrirtæki í Reykjavík og annað því um líkt þá er það einfaldlega rangt. Stærstur hluti þeirra sem starfa í greininni hefur starfað í því umhverfi sem er. Það er mjög mikilvægt að þegar við gerum breytingar á sjávarútvegskerfinu hugum við að þeim sem hafa starfað í greininni og hafa til að mynda verið að kaupa sér kvóta, skuldsett sig fyrir kvótakaupum og hafa ekki með nokkrum hætti verið að gambla með fjármuni í bankakerfi, bílaumboðum eða öðru slíku. Stærsti hlutinn af því fólki sem starfar við sjávarútveg streðar frá morgni til kvölds og hefur ekki gert neitt ólöglegt þó að hv. þingmenn, til að mynda Samfylkingarinnar, virðist nota hvert einasta tækifæri til að tala þessa atvinnugrein niður og þá sem starfa í henni eins og hefur komið fram í máli þeirra örfáu þingmanna sem hafa tekið til máls í umræðum um þetta mál í dag.