140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:22]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að fara í andsvar við hv. þingmann en lokaorðin í ræðu hans voru ekki mjög gæfuleg. Hvenær hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað þá niður sem starfa í sjávarútvegi? Hvað meinar hv. þingmaður með svona ummælum? Hefur slíku verið haldið fram hér í ræðustól í dag, um fólk sem starfar við fiskvinnslu eða á sjó? Það mátti skilja á ræðu hv. þingmanns. Það er af og frá og mjög ósanngjarnt að halda slíku fram og náttúrlega algjörlega úr lausu lofti gripið.

Af því að ég er kominn hingað get ég líka nefnt að hv. þingmanni varð tíðrætt um að þetta væri einhvers konar árás á byggðir landsins. Hvað telur hv. þingmaður að núverandi kerfi hafi gert fyrir byggðir landsins? Er það ekki staðreynd sem blasir við öllum sem það vilja sjá að í mörgum byggðarlögum hafa áður blómleg sjávarútvegsfyrirtæki verið lögð til hliðar? Í sömu húsunum eru núna starfrækt sjávarútvegssöfn og enginn sjávarútvegur rekinn. Það er afleiðingin af þeirri stefnu sem hann virðist vera að verja hér.

Ég trúi því illa að hann sé orðinn talsmaður óbreytts ástands í sjávarútvegi, mér finnst það mjög ótrúlegt. Hér er farinn millivegur, það hefur verið unnið í þessu máli í mjög langan tíma og það er rangt sem hv. þingmaður segir, að menn sjái ekki fyrir áhrifin á einstök fyrirtæki. Ég vek athygli hv. þingmanns á ágætri grein eftir Magnús Halldórsson sem er viðskiptafréttastjóri visir.is og Stöðvar 2 þar sem hann fjallar til dæmis um það sem HB Grandi greiðir af sínum gríðarlega hagnaði í veiðigjald eins og staðan er núna. Niðurstaða hans er sú að það blasi við að auðlindagjaldið gæti verið mun hærra en það var á síðasta ári, frekar 10–20% en 3,9%.