140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mitt litla hjarta ef hv. þm. Róbert Marshall fer sáttur frá þessari umræðu okkar. Reyndar höfum við svo sem aldrei tekist harkalega á heldur reynum við almennt, að ég tel, að vera málefnaleg þegar við ræðum saman.

Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þann rökstuðning sem ráðherrann, þáverandi formaður sjávarútvegsnefndar, færir fyrir þessari skoðun sinni. Ég las upp úr þessu viðtali (MÁ: Ert þú sammála …?) í fyrri ræðu minni: Óskynsamlegur skattstofn og óréttlátur, veiðileyfagjald sé sértækur skattur á grein sem skuldi nú þegar hundrað milljarða króna og sé í brýnni þörf fyrir (Gripið fram í.) fjárfestingu og uppbyggingu inn í framtíðina. (Gripið fram í.) Þetta eru rök (Gripið fram í.) sem ráðherrann notar til að rökstyðja skoðun sína og ég sé ekki hvað hefur breyst varðandi þessar staðreyndir þannig að þetta er einfaldlega gildur punktur inn í umræðuna. (Gripið fram í.)

Ég hvet hv. þm. Mörð Árnason, ef hann hefur eitthvað við mig að ræða í þingsalnum, að gera það úr pontu. Það á ekki að vera neitt feimnismál, hv. þm. Mörður Árnason, hvaða skoðanir maður hefur og hvet ég hann til að koma í ræðustól og halda þeim fram í staðinn fyrir að gaspra stöðugt fram í. Þetta er ansi hvimleiður siður hjá hv. þingmanni.

Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir málefnalega umræðu og hlakka til að hlusta á ræðu hans og málefnalegt innlegg í þessa umræðu.