140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í umræðum, að ég held hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að ekki hafi verið gerð nein tilraun til að kanna áhrif þessa frumvarps á bankana eða stöðu þeirra, þær fjármálastofnanir — (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Einn fund í salnum, takk.)

Ekki hafa verið könnuð áhrif frumvarpsins á stöðu bankanna. Ég man ekki hvort það kom fram hérna en því má velta fyrir sér hvort einhverjir samningar gildi við kröfuhafana um eignir, eða hvað á að kalla það, sem þeir telja sig eiga og tengjast sjávarútveginum. Eiga þeir mögulega bótakröfu á hendur ríkinu ef eignirnar skerðast með einhverjum hætti? Þetta þarf að skýra ef það er eitthvað óljóst.

Ég held hins vegar að það sé mjög gáleysislegt að fara fram með málið án þess að vera búinn að athuga hvort það hefur einhver þau áhrif sem hér voru viðruð. Þar af leiðandi erum við á stað sem við þekkjum svo vel hér í þinginu þegar fram koma stjórnarfrumvörp, það er gjarnan lítið búið að skoða áhrif þeirra þegar þau eru lögð fram.

Hv. þm. Jón Bjarnason hélt athyglisverða ræðu í kvöld þar sem þingmaðurinn fór yfir sögu tilrauna til að koma fram með frumvörp er tengjast sjávarútveginum gagnvart stjórnarflokkunum, aðallega gagnvart ríkisstjórninni. Eftir að hafa hlýtt á ræðu þingmannsins skal engan undra að það hafi gengið brösuglega að koma fram með þessi mál hér. Ég leyfi mér að segja það.

Í máli þingmanna sem hér hafa talað standa nokkur atriði einna helst upp úr, vissulega veiðileyfagjaldið sem hefur óneitanlega smitast inn í þessa umræðu hér. Það er ekkert skrýtið því að þessi frumvörp tengjast að einhverju leyti. Síðan hafa menn verið að velta fyrir sér ýmsum útfærslum í frumvarpinu.

Það er mjög erfitt að átta sig á áhrifunum á einstaka gerðir eða stærðir útgerða því að ekki er heldur gerð tilraun til að sýna fram á möguleg áhrif. Það er hins vegar ljóst að úti í samfélaginu eru margir með litlar eða stórar útgerðir að velta fyrir sér áhrifunum og reyna að reikna. Miðað við þau símtöl sem ég hef fengið og upplýsingar sýnist mér að þeir sem hvað mestar áhyggjur hafa séu þeir sem eru með frekar litlar útgerðir, meðalstórar kannski, hafa keypt aflaheimildir á árunum 2004, 2005 og 2006 og lentu í skerðingu 2007, sitja uppi með skuldirnar og hafa engar bætur fengið út af skerðingunum. Þeim er hins vegar gert að taka þátt í að greiða þetta veiðigjald samkvæmt hugmyndum sem fram hafa komið og gildir þá einu hvort þeir eru í veiðum og vinnslu eða bara veiðum. Það er áhyggjuefni, vil ég segja, frú forseti, að mat hafi ekki verið lagt á þessa hluti. Það kann að vera að það þurfi að gefa góðan tíma til að fá þessa útreikninga vegna þess að þar munu áhrifin koma einna best í ljós.

Allt tengist þetta því að væntanlega skulda þeir sem skulda aflaheimildir þessum fjármálastofnunum sem ég nefndi áðan. Það verður áhugavert að sjá viðbrögð þessara íslensku fjármálastofnana gagnvart þeim sem skulda þeim. Þá er ég ekki að tala um kröfuhafana eða eigendurna, ég er að tala um þá sem skulda hreinlega í bönkunum vegna til dæmis kvótakaupa. Hvað áhrif hefur það á veðhæfni skipanna, eða fyrirtækjanna að baki, þegar svona mikill hluti af hagnaði á að fara til ríkisins í formi einhvers konar aukaskattheimtu?