140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[23:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var stutt en hnitmiðuð. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann tæki undir þá ósk hv. þm. Guðlaugs Þ. Þórðarsonar að fram færi einhvers konar umræða í efnahags- og viðskiptanefnd um mat af áhrifum frumvarpsins á bankana. Mér þætti forvitnilegt ef hv. þingmaður gæti farið í örstuttu máli yfir það hvaða áhrif þingmaðurinn sér í hendi sér að frumvarpið mundi hafa á bankana. Og hvort það sé í rauninni eðlilegt að þau fylgiskjöl, þær úttektir og útreikningar sem liggja fyrir þegar málið er lagt fram, þrátt fyrir þennan langa fæðingartíma, séu ekki til staðar og ekki neinar úttektir séu á því hvaða áhrif þetta frumvarp hefur. Telur þingmaðurinn að það sé betra að gera þetta svona, leggja þetta beint fram og safna svo öllum gögnum eftir á, eða telur þingmaðurinn það betra vinnulag að gera það fyrir fram þannig að við í þinginu höfum upplýsingar fyrirliggjandi þegar við förum í umræðuna um málið?

Vissulega er frekar óþægilegt að vera ekki með neitt í höndunum nema þessa umsögn frá fjármálaráðuneytinu, sem vissulega er ágæt en að sjálfsögðu eðli málsins samkvæmt frekar afmörkuð og segir tiltölulega lítið. Ég spyr vegna þess að mér þykir eðlilegt að við reynum að læra af reynslunni. Áður hafa verið lögð fram mál hér í þinginu, m.a. af þessum sama meiði, út af þessu sama máli, þar sem málið var einfaldlega sett inn á netið og menn gátu verið að spá í það og velta því fyrir sér áður en það kom hingað inn. Hvor aðferðafræðin hugnast hv. þingmanni betur og getur hann ímyndað sér hvað afleiðingar þetta hefur fyrir bankakerfið?