140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé býsna snjallt og eitt af því fáa í þessu frumvarpi sem er nánast algjörlega samhljóða ályktunum framsóknarmanna. Ég hefði hins vegar, svona til að gleðja fjármálaráðuneytið, viljað ganga enn lengra og vil að það sama eigi við um allt veiðigjaldið, ekki bara það sem fer í þennan leigupott.

Ég er persónulega með mjög einfalda röksemd fyrir því. Þessar tekjur verða til á ákveðnum stöðum, obbinn verður til úti á landi. Þar eru byggðir í vanda, á höfuðborgarsvæðinu verða peningarnir gjarnan eftir. Hér er tækifæri til að leiðrétta það og láta þá aðila njóta þess með einhverjum hætti, styrkja byggðir og allt það, þannig að mér finnst þetta vera réttlætismál líka.

Það er held ég mikið yfirklór þegar menn kvarta yfir því að þetta sé flókið í framkvæmd og þess háttar. Við þekkjum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem er með áætlaðar tekjur. Vera kann að þetta sé svolítið gróft dæmi en engu að síður þekkjum við það að verið er að áætla tekjur og senda út til sveitarfélaganna upplýsingar um hvað áætlað er að þau fái og svo stenst það stundum og stundum ekki. Þetta er svo sem ekki alveg óþekkt. En það kemur ekkert á óvart að mjög sterk sjónarmið eru, sérstaklega innan fjármálaráðuneytisins, að vilja fá alla þessa aura í einn pakka og útdeila þeim svo þaðan, úr fjármálaráðuneytinu, sem ég held að sé ekki endilega besti staðurinn til að vista alla þessa peninga.