140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt og málefnaleg innlegg í umræðuna. Það sem ég staldra aðeins við er sú fullyrðing þingmannsins að einhver fyrirtæki muni ekki ráða við aukna arðsemiskröfu. Ef hér eru eðli málsins samkvæmt fyrirtæki sem meðal annars kröfuhafar hafa lestað skuldum langt umfram eðlilegt eignavirði munu auknar arðsemiskröfur hafa áhrif til þess að þau verða í neikvæðri afkomu. En er það afstaða hv. þingmanns að rekstrarskilyrði sjávarútvegsins eigi um alla tíð að vera með þeim hætti að engum fyrirtækjum verði ógnað í þeirri grein? Er það ekki sjónarmið hv. þingmanns, sem er hagfræðingur, að eðlilegt sé að gera vaxandi arðsemiskröfur til fyrirtækja til að þau auki hagkvæmni í sínum rekstri og að þau fyrirtæki sem ekki geta staðið undir eðlilegum arðsemiskröfum þurfi að endurskipuleggja starfsemi sína eða þá sameinast öðrum betur reknum fyrirtækjum? Er það hugmynd hv. þingmanns að við eigum að friða allt atvinnulíf í landinu með þeim hætti að tryggt sé að engin fyrirtæki á Íslandi sem eru í rekstri í dag verði nokkru sinni gjaldþrota?