140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé hárrétt hjá hv. þingmanni. Hann snertir þarna á mjög mikilvægu atriði sem er það að við endurskipulagningu íslenskra fyrirtækja virðast bankar og fjármálastofnanir hafa verið of gírug í að gera kröfu í framlegð fyrirtækjanna. Þar af leiðandi geta fyrirtækin í framtíðinni ekki staðið undir nægilega mikilli fjárfestingu og arðsemi til að vaxa eðlilega í framtíðinni. Ég held að það sé mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hvort íslensk fyrirtæki séu að meðaltali það skuldsett vegna mikilla krafna frá kröfuhöfum um endurheimtur á skuldum að fjárfesting verði í láginni um mörg ókomin ár sem leiði til þess að fyrirtækin grotni niður og samkeppnisstaða þeirra versni.

Hv. þingmaður spurði beint um HB Granda. Ég talaði um HB Granda í minni fyrri ræðu og sagði að það fyrirtæki hefði fjárfest fyrir um 6 milljarða á Þórshöfn en ég meinti Vopnafjörð. Góður maður sendi mér SMS og leiðrétti mig með það. Ég bið kjósendur mína á þessum stöðum innilegrar afsökunar á þessu. Sú fjárfesting sem hefur farið fram þar er þó nokkuð miklu meiri en nettóhagnaðurinn af besta árinu í sögu félagsins.