140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það eru margir fletir á þessu máli. Einn ætla ég að ræða sérstaklega, mér finnst lítið hafa verið rætt um hann og það er sú ráðstjórn sem þetta frumvarp felur í sér. Hér er á 55 stöðum verið að færa vald til ráðherra. Ég veit ekki hvort ég næ því í þessari stuttu ræðu að fara yfir það allt saman en ég ætla alla vega að byrja.

Samkvæmt 7. gr. skal ráðherra koma með reglugerð um heildarafla. Síðan getur ráðherra, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, ákveðið að fylgt sé langtímanýtingarstefnu fyrir einstakar tegundir í allt að fimm ár í senn. Ráðherra er heimilt innan fiskveiðiárs eða veiðitímabils að auka eða minnka heildarafla samkvæmt þessari grein.

Þegar kemur að 9. gr., Nytjastofnar utan aflahlutdeilda, er ráðherra heimilt með reglugerð að stjórna veiðum úr stofnum o.s.frv.

Veiðar utan fiskveiðilögsögu, 10. gr. Ráðherra getur sett reglur, honum er heimilt að binda veiðar íslenskra skipa, hann getur sett sérstakar reglur um stjórn veiða íslenskra skipa í ákveðnum tilfellum. Síðan getur ráðherra bundið veiðar sérstökum leyfum.

Í mjög mörgum öðrum greinum eru svona heimildir fyrir ráðherra að gera allt milli himins og jarðar. Einu sinni, í 11. gr., á hann við ákveðnar aðstæður að ráðfæra sig við þingið eða koma fram með þingsályktunartillögu. Annað eru bara heimildir og á hendi hæstv. ráðherra.

Í 13. gr. skal ráðherra að vísu ráðstafa aflahlutdeildum eins og hér segir, með leyfi forseta:

„… sem hann innleysir á grundvelli forgangsréttar, innan viðkomandi byggðarlags, sveitarfélags eða landshluta samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands. Skal ráðherra auglýsa hlutdeildina til sölu í viðkomandi landshluta. Eigendur skipa í byggðarlagi skulu hafa forgang að umræddum aflaheimildum, síðan eigendur skipa í sveitarfélagi og loks eigendur skipa í landshlutanum.“

Af því að menn tala mikið um nýliðun, virðulegi forseti, þá er hér um að ræða að aðilar, sem eru í útgerð í þeim landshluta sem er skilgreindur af Hagstofu Íslands af öllum stofnunum, eiga að hafa forgang umfram alla aðra og engin nýliðun er í boði þar á einhverjum aflahlutdeildum sem ráðherra skal ráðstafa.

Virðulegi forseti. Þetta er stutt ræða, ég er rétt byrjaður að fara yfir allar heimildirnar sem ráðherra hefur en stóra einstaka málið er þetta: Ráðherra getur og mun hafa í hendi sér útgerðina í landinu. Hann getur í rauninni með ákveðinni gerð af tilskipun ráðið hver lifir og hver deyr, hvaða útgerðaraðili og útgerðarflokkur, landshluti, muni fá að njóta þeirra gæða sem auðlindin gefur af sér. Mér finnst afskaplega lítið rætt um þetta. Ég hélt, virðulegi forseti, að ef menn væru að endurskoða sjávarútvegsmálin og fara vel yfir þau mundu þeir byrja á því að reyna að hafa leikreglurnar einfaldar og skýrar og láta ekki fjöregg þjóðarinnar svona algjörlega eins og autt blað í hendur misviturra stjórnmálamanna. Ég get ekki séð annað en að við séum að fara í þveröfuga átt við það sem ég var að vona að flestir væru búnir að koma sér saman um, að við vildum sjá almennilegar leikreglur í þjóðfélaginu en ekki (Forseti hringir.) setja gríðarleg verðmæti, virðulegi forseti, í hendur stjórnmálamanna sem geta útdeilt þeim nokkurn veginn eins og þeir vilja.