140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég undirstrika það sem ég hef áður sagt, það er mitt mat að núverandi kerfi sé ekki gallalaust, síður en svo, enda hefur það ávallt verið til endurskoðunar. Að mínu mati hafa oft verið gerðar á því mislukkaðar breytingar, það hefur verið kroppað allt of mikið í það. Kerfið í dag hefur ótvírætt stuðlað að hagræðingu, skilvirkni og ákveðnum stöðugleika sem er miklu meira en eftirsótt í dag. Við sjáum að aðrar þjóðir hafa í auknum mæli breytt yfir í aflamarkskerfið svipað því sem hér gerist. Það þýðir að samkeppnin við okkur mun aukast og harðna og við verðum að gæta að því að missa ekki með tíð og tíma markaðshlutdeild á erfiðum mörkuðum, ekki síst í dag til að mynda í Evrópu þar sem við þurfum að vera á tánum, eins og oft er sagt í boltanum. Það þýðir meðal annars að við þurfum að gæta okkar á öllum þeim breytingum sem geta ruggað bátnum um of þannig að við verðum ekki samkeppnisfær. Ég tel að ef menn fara ekki vel yfir þær ábendingar sem koma meðal annars fram hjá ýmsum sérfræðingum sem ég nefndi í minni fyrri ræðu verðum við fyrst illa stödd. Ég trúi því ekki að öllu óreyndu að það verði ekki gert.

Frasarnir í kringum þetta mál eru margir og greinilega tók það ríkisstjórnina langan tíma að koma því frá sér. Niðurstaða sáttanefndarinnar á sínum tíma var skýr og það er augljóst — þetta kemur ekki frá mér heldur frá fyrrverandi hæstv. ráðherra Jóni Bjarnasyni hér í dag — að verklagið hefur verið með þeim hætti að niðurstöður fyrri nefnda hafa ekki alltaf verið öllum ásættanlegar. Þess vegna hefur meðganga þessa frumvarps og reyndar líka næsta frumvarps á dagskránni verið nokkuð löng. Það sama gildir um til dæmis stjórnarskrána sem við sjáum að hefur verið kastað á milli stjórnarflokkanna til að reyna að ná viðunandi lendingu. Hið sama gildir um rammaáætlunina. Þetta er hvert stórmálið á fætur öðru sem við erum að ræða og eigum eftir að ræða og alltaf bíðum við eftir því hvaða niðurstöðu stjórnarflokkarnir ná sín á milli í því pólitíska reiptogi sem er tíðkað hverju sinni.

Það er kannski ekkert óeðlilegt, það hefur tíðkast en ekki í þessum stóru málum sem þó hefur verið lagt upp með að reyna að ná þverpólitískri sátt um eins og gildir um rammaáætlun. Ég flyt þá ræðu í tengslum við rammaáætlun þegar þar að kemur.

Varðandi byggðina hafa verið frasar um að auka atvinnufrelsi. Atvinnufrelsið í þessu frumvarpi snýr að mínu mati að því að auka miðstýringu í kerfinu. Það er talað um nýliðun. Kannski felst einhver nýliðun í því að nýliðinn á ekki lengur að kaupa eða leigja af útgerðinni heldur af ríkinu. Ég sé ekki að það komi einhverjir aðrir nýliðar, ekki nema að þeir nýliðar sem eru núna nýir í greininni séu ekki þeim þóknanlegir sem stjórna kerfinu.

Svo hefur verið talað um að efla byggð í landinu. Ég kom inn á það í fyrri ræðu minni að þorskarnir verða ekki fleiri í sjónum. Við erum að skipta sömu kökunni, það er bara verið að taka frá einni byggð og færa annarri. Svona tilfærslur koma niður á heildarhagsmunum bæði sjávarútvegsins en ekki síður samfélagsins í heild.

Það er athyglisvert að fara í ýmsar tölur í tengslum við sjávarútveginn og sjá þróunina, m.a. meðal krókaaflabátanna. Mig minnir að þorskígildistonnin þar séu í dag um 33 þúsund. 340 stunda útgerð innan krókaaflakerfisins og 500 bátar eru innan þess kerfis. Af þeim eru tíu stærstu útgerðirnar með 35% aflans. Fimm stærstu útgerðirnar innan krókaaflamarksins eru með 25% aflans. Þetta segir manni að í gegnum tíðina hefur orðið samþjöppun til að reyna að ná hagræðingu. Á stundum hefur orðið byggðaþróun sem er ekkert gaman að horfa upp á, en hluti af því er ekki síst að tækninni hefur fleygt fram. Menn nota önnur tæki í dag en þeir gerðu áður. Það þýðir (Forseti hringir.) að færra fólk starfar í greininni en það hefur hins vegar stuðlað að því að hagkvæmnin er það mikil að það hefur leitt af sér mjög arðvænleg sprotafyrirtæki sem við höfum fengið svo gleðilega að sjá í gegnum framvinduna (Forseti hringir.) í sjávarútveginum á liðnum árum.