140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki að því gert að þegar hv. þingmaður, sem hefur mikla reynslu í þessu máli, spyr held ég að fiskur liggi undir steini. Ég ætla samt að taka spurningunum eins og þær eru fram bornar og svara eftir bestu getu. Ég hef lengi sagt að stærstu markmiðin sem við ættum að ná snúast mikið um auðlindirnar. Mér finnst nefnilega styttra á milli flokka og fólks hér innan húss en menn vilja vera láta. Það tengist skilgreiningunni og eignarhaldinu á auðlindinni og síðan aðganginum og að það sé greitt fyrir hann.

Menn hefðu í gegnum tíðina átt að skilgreina þetta í stjórnarskrá. Eins og ég kom inn á í minni fyrri ræðu er þetta mjög skýrt í lögunum frá 1990, núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Þar er auðlindaákvæði, það er alveg skýrt að fiskurinn í sjónum er sameign íslensku þjóðarinnar og eins og ég var að tala um hékk heil ríkisstjórn í fjögur ár á því eina ákvæði að mínu mati, eða svo segja menn.

Á hinn bóginn hefði mátt taka þetta fastari tökum og fylgja meðal annars eftir þeim tillögum sem menn reyndu að ná í mjög þverpólitískri vinnu um auðlindir landsins og var skilað árið 2000, að mig minnir, undir forustu Jóhannesar Nordals. Menn áttu þá að taka það mjög alvarlega og setja þetta bæði í stjórnarskrá og greiða hóflegt veiðigjald. Það var komið á veiðileyfagjaldi með þeirri hugsun að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni en síðan má deila um hvort það sé nægilega sanngjarnt, annars vegar gagnvart þjóðinni en ekki síður gagnvart útgerðinni. Það má endurskoða og við sjálfstæðismenn höfum alla tíð sagt það. Það má hins vegar ekki vera þannig að útgerðin geti ekki haldið áfram að (Forseti hringir.) fjárfesta og sjá hagkvæmnina í að reka og halda uppi burðugum og öflugum útgerðarfyrirtækjum. Við treystum á að við getum haldið áfram að (Forseti hringir.) starfrækja góðan og öflugan sjávarútveg.