140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Athyglisverð lokaorð hv. þingmanns um sovétismann. Það er athyglisvert að lesa þetta frumvarp með þeim gleraugum ef ég má orða það þannig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þær upplýsingar eða vangaveltur sem komu fram áðan um að ekki sé búið að leggja mat á áhrif þessara frumvarpa á bankana eða á samninga sem gerðir hafa verið við kröfuhafana. Ef ég hef skilið þetta rétt kunna að vera í samningunum ákvæði sem lúta að því að ef kröfuhafarnir telja sig hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum vegna þessara breytinga sé ríkið skylt að bæta þeim það upp. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður þekkir þetta eitthvað. Ég heyrði bara á göngunum áðan að menn hefðu verið að velta þessu upp hér í ræðustól. Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort hann kannist við þetta, ég veit að þingmanninum er væntanlega kunnugt um að þetta hafi ekki verið kynnt fyrir bönkunum sérstaklega eða þeir beðnir um álit á þessu, og um áhrif þess sem ég er að tala um að geti mögulega orðið ef þessir aðilar telja sig hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum.

Hvaða áhrif kann það að hafa — nú eru margir útgerðaraðilar, smáir og stórir, með lán hjá viðskiptabönkunum í dag út af kvótakaupum og ýmsu — á samninga þessara aðila við lánastofnanir ef þetta gengur eftir sem hér er lagt til þegar slagurinn um arðinn frá þessum fyrirtækjum, frá þeim sem skila arði, þegar ríkið og lánastofnanir eru farnar að bítast um það sem þarna er mögulega umfram?