140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar í allri umræðu um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að þær séu til þess að efla sjávarbyggðir úti um allt land. Mig langar aðeins að gera að umtalsefni hversu líklegt það er með þessu frumvarpi. Áður hefur komið fram mikil gagnrýni á það hversu illa unnið þetta er, þ.e. að þær athuganir á áhrifum frumvarpsins sem nauðsynlega þurfa að fara fram hafi ekki verið gerðar þrátt fyrir að Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, og Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, hafi samið stutta greinargerð með frumvarpinu. Þar fara þeir yfir flesta þætti þess en það er engan veginn fullnægjandi og í raun er allt of mörgum spurningum ósvarað. Þeir komast að þeirri niðurstöðu í þessari greinargerð að það séu miklir vankantar á frumvarpinu, þar á meðal að byggðaaðgerðir þess séu mjög ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Það skorti fyrst og fremst enn á þann langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum og að útfærsla á ráðstöfun aflamarks í flokki 2 á kvótaþingi sé mjög óljós. Strandveiðar voru hugsaðar af hæstv. ríkisstjórn til að efla byggð og atvinnustarfsemi úti um allt land en þeir komast að því að út frá langtímahagsmunum slíkra byggðarlaga megi þvert á móti líta á strandveiðar, eins og þeim er nú háttað, sem ákveðna sóun um fjórðungs þess aflamarks sem ætlað er að stuðla að farsælli samfélagsþróun og treysta atvinnu og byggð í landinu. Þeir segja um strandveiðarnar að það sé mun nærtækara að draga úr strandveiðikvótanum þangað til í ljós hefur komið að hvaða marki kvótaþing uppfyllir kröfu um aðgang allrar þjóðarinnar að hinni sameiginlegu auðlind. Þeir vara við því að það verði farið í mikinn niðurskurð á byggðakvótanum meðan reynsla er að koma á málið.

Það er annar hluti í þessu sem skiptir máli. Hugmyndin er að færa öll viðskipti með veiðiheimildir inn á svokallað kvótaþing. Það getur orðið andstætt þessu markmiði um byggðaþróun, þ.e. styrkingu á ákveðnum byggðasvæðum. Þau fyrirtæki sem eru að leigja frá sér veiðiheimildir í dag líta gjarnan til sinnar heimabyggðar. Þeir sem eru í þessum minni útgerðarfyrirtækjum þurfa oft tímabundið að fá inn leiguheimildir í þorski eða ýsu, kannski á meðan þeir eru að bíða eftir því að byggðakvóti komi til úthlutunar, þurfa eitthvað til að bjarga sér fyrir horn. Það hefur verið þekkt í samdrætti á ýsukvótanum að þetta hefur oft skapað vandamál. Þá hafa útgerðir á svæðinu sem eru með sterkari kvótaeign hjálpað þeim sem þurfa en hafa gert þetta innan svæðisins til að halda veiðiheimildunum þar. Þarna er það ekki lengur hægt. Þarna verður þetta að fara inn á eitthvert kvótaþing og útgerðirnar geta engu ráðið um það hvort þessum veiðiheimildum verður haldið í heimabyggð eða ekki. Þetta er til umhugsunar en vinnur greinilega gegn byggðahugmyndunum í þessu frumvarpi.

Það er mikið talað um nýliðun í sjávarútvegi. Ég hef haldið því fram að nýliðunin í sjávarútvegi sé ekkert vandamál. Það er ekkert öðruvísi að fara í rekstur í sjávarútvegi í dag en rekstur á hverju öðru fyrirtæki. Ég þekki dæmi um það þar sem ungt fólk hefur verið að hasla sér völl í sjávarútvegi. Það byrjar smátt, og með mikilli elju, dugnaði og áræði haslar það sér völl. Þetta er alveg það sama og er að gerast í öðrum atvinnurekstri. Menn þurfa að hafa traust, áræði, vilja og dugnað til að fara af stað í atvinnurekstur og menn þurfa að hafa aðgang að fjármagni. Það er ekkert öðruvísi (Forseti hringir.) í sjávarútvegi og þess eru fjölmörg dæmi að lítil fjölskyldufyrirtæki eru að byggja sig upp um allt land nákvæmlega á þessu. Það eru nýliðarnir í sjávarútvegi (Forseti hringir.) en það eru þeir nýliðar sem munu fara verst út úr þessu frumvarpi.