140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hugsunin í því hvort það er ríkis- eða þjóðareign sé hin sama. Það getur vel verið að hér sé um að ræða einhverja handvömm í orðalagi en aðalatriðið er það sem ég held að allir séu sammála um, að það sé skilgreint skýrt að þessi náttúruauðlind, fiskurinn í sjónum, sé eign þjóðarinnar. Um það er ekki mikill ágreiningur.

Varðandi framsalið held ég að það sé hárrétt, virðulegi forseti, hjá hv. þm. Pétri Blöndal að það verður til mikils skaða að afnema það. Því er gjarnan haldið fram í umræðunni að það sé bara LÍÚ sem gagnrýni þessa vinnu. Það er með ólíkindum að heyra stjórnarliða tala niður til þeirra aðila sem starfa í sjávarútvegi. Ein helsta gagnrýni smábátasjómanna er einmitt á þessa skerðingu á framsalinu vegna þess að þeir gera sér grein fyrir mikilvægi þess. Það vita líka allir sem hafa kynnt sér þessi mál, sem ég efast oft um að (Forseti hringir.) sérstaklega margir þingmenn Samfylkingarinnar hafi gert, að þetta er einn helsti haghvati kerfisins. Þetta hefur verið grunnurinn að (Forseti hringir.) allri þeirri stóru hagræðingu sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi.