140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að þetta atriði er óljóst. „Ástæður sem ekki varða stjórnvöld …“ Hvaða ástæður geta komið upp er ekki varða stjórnvöld? Er það þá stjórnvalda á hverjum tíma að meta hvað hefur komið upp sem gerir að verkum að viðkomandi aðili fær ekki nýta það leyfi eða þær heimildir sem hann hefur? Þetta er mjög matskennt og í raun getur það farið eftir stjórnvöldum á hverjum tíma hvað þau telja að eigi þarna við, þannig að þetta er áhyggjuefni.

Síðan kemur hér fram að ef viðkomandi aðili fær ekki að nýta leyfið skal heimildunum ráðstafað í leigupott 2. Það er ekki þannig að þeim sé deilt út til annarra eða að aðrir sem hafa nýtingarleyfi geti fengið að veiða þetta (Forseti hringir.) heldur er farið með það í leigupottinn, sem er undarlegt.