140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í umræðunni um þetta mál fyrr í dag hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þær tillögur sem voru í gangi í sjávarútvegsráðuneytinu sneru að meiri byggðatengingum, ekki kvótaþingi, og að auðlindagjaldið — við skulum láta liggja milli hluta upphæðina á því — skiptist út og rynni að hluta til sveitarfélaga. Nú hefur orðið kúvending á þessu og þetta frumvarp hverfur frá þeirri stefnu og verður þar af leiðandi að einhverju leyti byggðafjandsamlegra.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er hvað hann telji búa að baki þessari kúvendingu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Hver eru rökin fyrir því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem tók við ráðuneytinu um áramótin, gefi eftir gagnvart byggðum landsins og hinum dreifðu byggðum með þessum hætti og verði við kröfum Samfylkingarinnar sem snúast á engan hátt um að efla byggð í landinu?