140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[01:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Jóns Bjarnasonar í dag var mjög áhugaverð. Hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingrími J. Sigfússyni gengur til er ómögulegt að segja. Hann snýst náttúrlega eins og vindhani í málum sem hann hefur haft mjög harða afstöðu í fram að þessu.

Ég las í dag úr ræðu hans um veiðileyfagjaldið að hann segðist þeirrar skoðunar að gjaldið væri óskynsamlegur skattstofn og óréttlátur, það væri sérstakur skattur á greinina og greinin þyrfti einnig á fjármunum að halda til endurnýjunar á frystihúsum og öðru og væri nánast eina von landsbyggðarinnar. Það eru ekkert mörg ár síðan hæstv. ráðherra talaði svona, að veiðileyfagjald væri ekki flóknara en þetta og það ætti að hætta þessu rugli. Það voru hans orð fyrir nokkrum árum. (Forseti hringir.) Hann taldi gjaldið sérstaklega fjandsamlegt byggðinni. Síðan kemur hann hér fram með frumvarp sem sýnir að hæstv. ráðherra er í þessu máli á einhverri (Forseti hringir.) vegferð sem engan veginn er hægt að átta sig á, eins og í svo mörgum öðrum málum.