140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Frá því að þessi umræða hófst og kallað var eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri við hana hefur fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra tekið þátt í henni. Hann sagði að í þessu frumvarpi hefði verið dregið úr byggðatengingum frá því sem var og að greinilega hefði verið látið undan þrýstingi með það að koma frekar á leigumarkaði en byggðatengingum og stórhækkun veiðigjalds án þess að skipta því milli sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Þetta eru gríðarlegar breytingar. Það er mjög mikilvægt að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé við þessa umræðu og upplýsi af hverju þessar breytingar hafi verið gerðar, af hverju dregið hafi verið úr byggðatengingum og af hverju veiðigjaldið hafi verið hækkað án þess að dreifa því frekar til sveitarfélaganna. Þetta hefur ekki komið fram í umræðunni vegna þess að þetta snýr að hæstv. (Forseti hringir.) sjávarútvegsráðherra sem staddur er í Kanada en er ekki hér við þessa mikilvægu umræðu.