140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvort virðulegur forseti geti upplýst mig um það hvað klukkan er í Ottawa. Nei? Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér er sú að ég vonast til þess að virðulegur forseti geti gert ráðstafanir til að kanna hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi að minnsta kosti aðstöðu til að fylgjast með umræðunum í þinginu í dag. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að þingmenn stjórnarliðsins töldu það sæmandi í gær að þingið ræddi sjálfa stjórnarskrána fram eftir nóttu. Svo kom í ljós að þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að fylgjast með umræðunni. Einn þingmaður kvartaði undan því að hafa verið truflaður í bíó þegar hann var skyndilega kallaður til umræðunnar. Þó að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti ekki verið með okkur hér í dag finnst mér skipta máli að hann fylgist að minnsta kosti með umræðunni svo hann geti tekið þátt í henni þegar hann loksins kemur til landsins.