140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í minni fyrri ræðu hér í dag vék ég að því að í þeim tveimur pottum sem er verið að leggja upp með í þessu frumvarpi um stjórn fiskveiða er gengið út frá því að annar þeirra verði pottur ríkisins, pottur þar sem menn renna saman ýmsum byggðatengdum aðgerðum sem við höfum þekkt í kerfinu fram til þessa, eins og með strandveiðum, byggðakvóta, skel- og rækjubótum, og nú leigupottur líka sem reyndar er ætlunin að stækka. Ég vakti athygli á því að þegar sáttanefndin skilaði af sér á sínum tíma gerði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins þá bókun að það væri eðlilegt að viðhalda slíkum úrræðum í kerfinu fyrir byggðaleg sjónarmið, félagsleg og í atvinnulegum tilgangi, en það væri eðlilegast að þetta hlutfall slíkra byggðatengdra úrræða sem gilt hefðu á umliðnum árum yrði fastsett sem ákveðið hlutfall af heildarúthlutuninni. Þetta var bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Í sáttanefndarskýrslunni sjálfri var síðan skýrt það mat meiri hlutans, eins og lesa má á bls. 56, að það væri rétt að endurskoða lagaákvæði um bætur og festa þær í lögum sem hlutfall af heildarafla í stað magntalna líkt og gert er nú. Þetta segir í skýrslunni. Það vekur þessa vegna mikla athygli hversu ákveðið er gengið í hina áttina í frumvarpinu sem við erum hér að ræða, þ.e. frá því að fastsetja þennan pott sem hlutfall af heildaraflanum og mjög ákveðið til þess að láta hann í framtíðinni vaxa. Það sjáum við meðal annars á hugmyndinni um að við framsal skuli ákveðinn hluti hins framselda aflamarks renna inn í þetta pottakerfi, þ.e. 3% við hvert framsal. Síðan sjáum við þetta líka í þeirri reglu sem nefnd er í frumvarpinu um að þegar tilteknu hámarki er náð muni umframúthlutun skiptast í ákveðnum hlutföllum á milli potts 1 og potts 2 eins og það er nefnt í þessu máli.

Þetta sýnir mjög ákveðið að í framtíðinni er hugmyndin sú að það verði alfarið bannað að framselja. Höfundar frumvarpsins virðast ganga út frá því að það sé skynsamlegt til lengri tíma litið að láta pottana vaxa. Þetta finnst mér óútskýrt og ganga þvert gegn niðurstöðu sáttanefndarinnar. Sérstaklega gengur þetta að sjálfsögðu freklega gegn bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem á þeim tíma taldi að ekki ætti að ganga lengra á þessari braut.

Ég vek athygli á því í þessu sambandi að frá því að sú bókun var gerð hefur ríkisstjórnin nú þegar stækkað pottana. (Gripið fram í: … mörg þúsund tonn.) Um mörg þúsund tonn, eins og bent er á. Þetta er atriði sem við hljótum að staldra við í umræðunni.

Annars er mjög fróðleg lesning sem ég hef smám saman verið að ljúka í allri greinargerðinni með frumvarpinu. Þetta er frumvarp sem tekur tíma að komast yfir í smáatriðum enda upp á 60 blaðsíður. Það er mjög fróðlegt að lesa umsögn Daða Más Kristóferssonar um þau atriði sem hann tekur til umfjöllunar. Hann bendir til dæmis á að þetta séu allt meira eða minna ívilnanir fyrir hinn óhagkvæmari hluta íslenskra útvegsfyrirtækja. Það er ekki bara þetta sem má nefna í því sambandi heldur mætti líka benda á að það er verið að gefa smáum útgerðum afslátt af veiðigjaldinu. Það hlýtur að mega segja (Forseti hringir.) að í því felist jafnframt niðurgreiðsla. Þetta eru atriði sem ég tel að þarfnist frekari skýringar við, virðulegi forseti.