140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hagkvæmni og arðsemi hafa verið hv. þingmönnum, ekki hvað síst Sjálfstæðisflokksins, hugleikin í þessari umræðu. Það er skiljanlegt, það þarf að reka þessa undirstöðugrein á hagkvæman og arðbæran hátt. Það mætti hugsa sér að hægt væri að búa til kerfi eða fyrirkomulag sem skilaði hámarksreiknaðri hagkvæmni en væri kannski ekki sú heillavænlegasta fyrir samfélagið. Ég nefni sem dæmi að það væri hægt að reka eitt stórt sjávarútvegsfyrirtæki með starfsstöðvar á fjórum stöðum á landinu en það væri kannski ekki gott fyrirkomulag.

Er hv. þingmaður sammála mér um að það þurfi að blanda inn í þetta fyrirkomulag því sem kalla mætti félagsleg eða samfélagsleg sjónarmið og taka þá meðal annars tillit til byggðamála, tillit til þess að sjávarútvegur sé rekinn víða á landinu? Slíkt fyrirkomulag þarf þó að sjálfsögðu að fela í sér arðsemi og heildarhagkvæmni. Það sem mér hefur nefnilega þótt vera meginvandamálið við þessar tillögur stjórnarflokkanna er að hugmyndafræðin er mjög ofarlega hjá þeim en það vantar algjörlega útreikningana um arðsemina og að dæmið gangi upp.

Til að gera langa spurningu stutta: Er hv. þingmaður sammála mér um að það þurfi að blanda þessum þáttum saman, þessum samfélagslegu og hinum hreinu arðsemisþáttum? (ÓN: Við erum svo spennt.)