140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað mjög mikilvægt þegar við reynum að finna sameiginlega lausn að við séum þá örugglega að ræða um sama vandamálið. Þannig held ég að mikill munur sé á milli flokka hér á Alþingi þegar kemur að því að skilgreina þann vanda sem við er að etja. Ég tel til dæmis að núverandi stjórnarflokkar hafi gert of mikið úr þeim vanda sem mikið hefur verið fjallað um í dag og í tengslum við þetta frumvarp, að það sé stórkostleg hætta á því að þjóðin sé að tapa frá sér fiskimiðunum við Ísland yfir til útgerðarinnar. Ég tel að núverandi lagaákvæði um það efni girði fyrir að það geti gerst. Ég tel jafnframt að hægt sé að festa í stjórnarskrá ákvæði um það efni.

Fyrst hv. þingmaður nefnir nýtingarsamningana gætu þeir að sjálfsögðu líka komið til sem eins konar tæki inn í þá umræðu til að fyrirbyggja og tryggja endanlega að ekki væri að myndast neinn beinn eignarréttur í tengslum við nýtingu á þessari takmörkuðu auðlind. Út af fyrir sig er það mín skoðun að það sé ekki aðkallandi að gerðir verði slíkir samningar en við höfum hins vegar lýst okkur reiðubúin til að fara þá leið til að skapa sátt.

Í stuttu máli er það mín skoðun að við höfum byggt upp á Íslandi undanfarna áratugi gríðarlega hagkvæmt og gott sjávarútvegskerfi, besta kerfi sem til er. Ég vil ekki nálgast umræðuna um þörfina fyrir breytingar á því kerfi með því að byrja á þeirri staðhæfingu að kerfið sé vont og ómögulegt. Það þarf hins vegar að sníða af því ýmsa agnúa. Til þess að það (Forseti hringir.) verði gert þurfa menn að byrja á því að vera sammála um hvar vandinn liggur.