140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að augljóst sé að það getur varla verið vandamál ef myndast hagnaður í einhverjum rekstri. Það getur varla verið vandamál. Ég tek undir með hv. þingmanni að svo virðist sem stjórnarflokkarnir líti á það sem kannski eitt helsta vandamál sjávarútvegsins að þar sé að verða til einhver hagnaður.

Ýmsir hafa haldið því fram — ég ætla ekki að kveða upp úr með hvort það kunni að vera rétt eða ekki — að frá því þetta fiskveiðistjórnarkerfi var sett á fót hafi orðið til eignarréttur í kerfinu, þ.e. að hjá handhöfum aflaheimilda, sem eru búnir að vera í kerfinu mjög lengi, hafi myndast einhvers konar eignarréttur. Ég velti því fyrir mér, verður sá eignarréttur, ef hann er til staðar, nokkurn tímann tekinn af nema með samningum — nema málaferli komi til og allt sem því fylgir? Ég sé það nefnilega ekki í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram að gert sé ráð fyrir að gerðir séu samningar, heldur er talað um að veitt verði leyfi. (Forseti hringir.) Er ekki töluverð hætta á að í kjölfarið fylgi mikil málaferli ef það er enn þannig að menn telji sig hafa myndað þarna einhvers konar rétt til eignar?