140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum komin í mikið öngstræti, mér finnst það svo augljóst. Þegar maður les þennan texta er hugsunin alltaf sú að menn byrja einhvern veginn á því að forma einhverja hluti og svo sér ráðherrann bara um þetta.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hér er ekki um einhverjar útfærslur að ræða á tæknilegum hlutum. Hér erum við að ræða milljarðatugi þegar við erum að skoða bætur, byggðakvótann, strandveiðarnar, krókaaflamark og alla þessa hluti.

En þá er hér um það að ræða að stjórnmálamanni er falið þetta allt saman, hann getur ráðið því hver lifir og hver deyr í þessari grein, hvaða byggðarlög og sveitarfélög geti haft sjávarútveg og hver ekki. Þetta er ekkert minna en það, virðulegi forseti.