140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ráðherrann hefur mjög miklar heimildir samkvæmt frumvarpinu þegar kemur að þessum sérstaka potti sem skapaður hefur verið fyrir ráðherrann til að gera ýmsar ráðstafanir með til að koma á móts við héraðsbresti vegna sjávarútvegsgreinarinnar. Af þeirri ástæðu hefur einn umsagnaraðila í þessu máli, Daði Már Kristófersson, bent sérstaklega á hvað það er sem hefur lagt grunninn að aukinni hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi langt umfram það sem þekkst hefur annars staðar undanfarin ár. Það er einmitt hið frjálsa framsal sem hefur átt sér stað í hinum hluta kerfisins. Hann rekur það einnig í sinni ágætu umsögn að þessi hluti kerfisins, sem hv. þingmaður er að tala um, er sá hluti kerfisins sem er óhagkvæmari og ákvarðanir sem byggjast (Forseti hringir.) á pólitískum forsendum þarf að réttlæta sérstaklega. Á það þykir mjög skorta að það sé gert (Forseti hringir.) í þeirri umsögn.