140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem mig langar að ræða, það var bara eitt atriði en nú eru þau orðin tvö. Þar sem forseti hefur upplýst að forseti hafi ekki hugmynd um hve lengi fundurinn muni standa hvet ég hæstv. forseta til að taka sér tíma til að velta því fyrir sér hversu lengi þessi fundur á að standa því að það eru jú nefndafundir klukkan hálfníu í fyrramálið og einhver okkar eigum, því miður verð ég að segja, eftir að kynna okkur nokkur gögn sem eru fyrir fund í fyrramálið. (Gripið fram í: Og keyra heim.) Sumir eiga eftir að fara um langan veg.

Hitt, frú forseti, sem skiptir líka miklu máli, og ég verð að viðurkenna að ég missti af í kvöld, mér skilst að það hafi verið hér í umræðu, er að ég las það áðan á netinu að aðalsamningamaður Íslands um makrílinn hafi verið látinn hætta störfum vegna þess að einhver furðulegur samningur um lán á manninum milli tveggja ráðuneyta rann út. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að framlengja þennan samning? Er það virkilega þannig (Gripið fram í.) að það séu (Gripið fram í.) svona (Forseti hringir.) mikil skil á milli utanríkisráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis að aðalsamningamaðurinn í þessari hörðu (Forseti hringir.) deilu, erfiðu deilu, er bara látinn taka pokann sinn af því að einhver samningur rann út? Þessu þarf að svara.