140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að lýsa miklum áhyggjum mínum af því sem virðist vera að mistakast algerlega á þinginu, að fara eftir því sem við þó vorum sammála um fyrir fáeinum missirum, þ.e. að breyta vinnubrögðum og fá fram á þinginu frumvörp frá ríkisstjórninni með góðum tíma fyrir þinglok þannig að við lendum ekki í því sem við erum einmitt að lenda í núna, að þurfa að vera hér fram á nótt dag eftir dag. Við vorum líka fram á nótt í gær. Hvers vegna? Eingöngu vegna þess að frumvörp eru að koma frá ríkisstjórninni í síðustu vikunni, síðustu dagana fyrir frestinn til að leggja fram þingmál. Hvers vegna erum við hér fram til klukkan þrjú í nótt? Jú, vegna þess eins að ríkisstjórnin leggur svo mikla áherslu á að koma málinu til umsagnar en hún tók sér þrjú ár í að setja málið saman. Á hverjum bitnar það? Það bitnar á þeim sem (Forseti hringir.) vilja taka hér málefnalega umræðu um málið. Þetta er alveg hræðileg þróun sem er að verða í þinginu og óeðlilegt að tvö mál frá ríkisstjórninni (Forseti hringir.) valdi því að við í stjórnarandstöðunni séum látin vera hér fram á nótt til að koma á framfæri eðlilegum skoðunum.