140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég tók þetta verðtryggingarmisvægi sem hv. þingmaður nefnir, sem er einkum í Landsbankanum, upp á síðasta fundi ráðherranefndar um efnahagsmál. Við höfðum kallað til fulltrúa Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans þannig að það var aðeins rætt þar og ég held að það sem við sjáum í Landsbankanum um þetta misvægi í verðtryggingunni sýni okkur mjög ljóslega að það eru sterk rök fyrir því að komast út úr verðtryggingunni. Ég tel einboðið að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skoði hvort ekki sé ástæða til að leiðrétta þetta með einhverjum hætti þegar það liggur fyrir að það er ójafnvægi á eigna- og skuldahlið þegar um er að ræða verðtryggð lán.

Maður spyr sjálfan sig um þetta verðtryggingarójafnvægi: Hvernig er þá með innlánshliðina og skuldarana? Hvernig er með vaxtamuninn? Þarf ekki að skoða hann? Er bankinn ekki í færum til þess, þegar staðan er svona, að láta eitthvað af þessu ganga betur til skuldaranna og lækka vextina með einhverjum hætti eða þá að skoða innlánsreikningana sem eru með neikvæða vexti? Mér finnst þurfa að skoða ýmislegt í þessu. Ég held að þetta mál ógni ekki stöðugleika í bankanum heldur hjálpar þetta verðtryggingarmisvægi honum frekar. Ég tel að þetta sé þess eðlis og það mikið, og það í þessum eina banka, að það sé full ástæða til þess og mun beita mér fyrir því að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skoði þetta sérstaklega (Forseti hringir.) og út af fyrir sig einnig samráðsnefnd um fjármálastöðugleika.