140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit út af fyrir sig ekki hvort það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að leggja bankanum lífsreglur. Við gefum auðvitað út okkar eigendastefnu en þegar svona mál koma upp hlýtur það að vera verkefni Fjármálaeftirlitsins ekki síst og þá Seðlabankans að skoða þetta mál. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég mundi beita mér fyrir því frekar en ég hef gert að það verði skoðað hvort ekki þurfi að verða einhver leiðrétting á þessu máli og einhverjar leiðbeiningar til bankans til að auka jafnvægi.

Við sjáum líka núna hvað er að gerast í útlánaþróun vegna íbúðarhúsnæðis. Fólk tekur í auknum mæli óverðtryggð lán sem hefur auðvitað bæði kosti og galla. Ég vona að það skili einhverjum árangri ef Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skoða það að beina því til bankans að ná meira jafnvægi en við höfum séð og hv. þingmaður lýsti að því er varðar verðtryggingarmisvægi sem er (Forseti hringir.) sannarlega í Landsbankanum.