140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

samningamaður Íslands í makríldeilunni.

[10:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau lofsamlegu ummæli sem hún lætur falla um aðalsamningamenn utanríkisráðuneytisins. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þar er valinn maður í hverju rúmi og hárrétt hjá henni að þeir hafa allir sem slíkum hlutverkum gegna einungis það að leiðarljósi að ná sem bestum samningum fyrir hönd Íslands. Þannig er það nú.

Ég get fullvissað hv. þingmann (Gripið fram í.) um það varðandi þá deilu sem hún færir inn í umræðuna að það er algerlega ljóst að hagsmunir Íslands varðandi makríl verða ekki seldir í tengslum við aðildarumsóknina.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að í gangi hefur verið samningur milli utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins frá því í apríl 2009, að ég held, um að tiltekinn hluti af starfskröftum þessa ágæta embættismanns yrði nýttur af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins. Það hefur komið í ljós að sá hluti af vinnugetu þessa embættismanns sem fór í þessa tvenna samninga var miklu meiri en um var samið og raunar svo að ég held að það megi segja að það hafi orðið hærra en 100%. Í upphafi var rætt um 30%. Ég hef um nokkurt skeið rætt það við sjávarútvegsráðuneytið, alveg frá því á miðju ári í fyrra, að ljúka þessum samningi af okkar hálfu vegna þess að það er þörf á þessum starfsmanni í mínu ráðuneyti. Hann er eini þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins og yfir það ráðuneyti hafa hvelfst aukin verkefni á því sviði. (Gripið fram í.) Einvörðungu þess vegna óskaði ég eftir þessu. Ég held að ég hafi sagt þessum samningi upp einhvern tímann í nóvember/desember og mig minnir að uppsögnin hafi tekið gildi 1. febrúar, einhvern tímann á því tímabili. Það var gert eingöngu vegna þessara innri mála utanríkisráðuneytisins, það er þörf á þessum starfsmanni við tiltekna hluti sem verið er (Forseti hringir.) að byggja þar upp, en eins og hv. þingmaður gat um er þar valinn maður í hverju rúmi. Reyndar er í sjávarútvegsráðuneytinu einn reyndasti samningamaður Íslands fyrr og síðar líka á þessu sviði.