140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

orð forsætisráðherra um fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.

[11:11]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. forseta að þetta passi líka undir liðinn um fundarstjórn forseta þingsins því að ummæli forsætisráðherra í ræðustól um mig sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra voru fullkomlega óboðleg. (Gripið fram í: Fékk hún áminningu?) Þau voru óboðleg viðkomandi sem forsætisráðherra og ég tel að hún (Gripið fram í.) ætti að hugsa sinn gang í þeim efnum.

Hún fór fram með ásakanir um að ég hefði tafið sjávarútvegsfrumvarpið og vinnu við það. Það er fullkomlega rangt. Meira að segja í eitt og hálft ár var það í nefnd undir forustu Guðbjarts Hannessonar, núverandi velferðarráðherra, nærri ári lengur en ætlað var.

Ég minni líka á skötuselsmálið sem kom inn í þingið og var ísbrjótur. Samtök atvinnulífsins mótmæltu harðlega að það kæmi inn. Forsætisráðherra beitti áhrifum sínum og reyndi að fá það afturkallað því að Samtök atvinnulífsins höfðu klagað yfir því og sagt það brot á stöðugleikasáttmálanum. Sem betur fór var það samþykkt (Forseti hringir.) en eftir á fór forsætisráðherra og hældi sér af því. Ég verð að segja, (Forseti hringir.) frú forseti, að ég hef sjaldan heyrt aumari málflutning (Forseti hringir.) hjá nokkrum forsætisráðherra en (Forseti hringir.) forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Það verð ég að segja, frú forseti, og mér þykir það leitt (Forseti hringir.) fyrir hennar hönd.